Víkingur fær úrvalsdeildarsætið

Víkingur leikur í úrvalsdeild á næsta tímabili.
Víkingur leikur í úrvalsdeild á næsta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víkingur leikur á ný í úrvalsdeild karla í handknattleik á næsta keppnistímabili en það var staðfest nú undir kvöld þegar HSÍ lauk úrvinnslu á þátttökutilkynningum fyrir tímabilið 2017-2018.

KR hefði að óbreyttu átt að fá sæti í deildinni en þar sem félagið mun ekki tefla fram meistaraflokki á næsta tímabili fær Víkingur sætið sem efsta lið 1. deildar 2016-17 af þeim liðum sem ekki höfðu tryggt sér úrvalsdeildarsæti. Víkingur endaði í þriðja sæti á eftir Fjölni og ÍR sem bæði fara upp.

Alls munu 28 lið taka þátt í deildakeppni meistaraflokks karla næsta  vetur. Samkvæmt samþykkt á ársþingi HSÍ í fyrra átti að fjölga liðum í úrvalsdeild úr tíu í tólf ef liðin yrðu 20 eða fleiri. Þau voru 22 í vetur, tíu í úrvalsdeild og tólf í 1. deild.

Það eru því Stjarnan, sem endaði í 9. sæti úrvalsdeildar, og Víkingur sem fá sætin tvö sem losnuðu vegna fjölgunar liða í deildinni.

KR og Hamrarnir frá Akureyri verða ekki með en í staðinn koma KA og Hvíti riddarinn úr Mosfellsbæ inn sem ný lið. Akureyri handboltafélag verður einnig með, í umsjón Þórs, eins og áður hefur komið fram.

KA og Akureyri bæði í 1. deild.

Nú hafa hinsvegar sex ungmennalið félaga úr úrvalsdeildinni bæst í hópinn. Þar með munu 12 lið leika  í úrvalsdeild, 8 í 1. deild og 8 í 2. deild veturinn 2016-2017.

Í kvennaflokki fjölgar um eitt ungmennalið í 1. deildinni en deildaskiptingin 2017-18 verður sem hér segir:

Úrvalsdeild karla: Afturelding, FH, Fjölnir, Fram, Grótta, Haukar, ÍBV, ÍR, Selfoss, Stjarnan, Valur, Víkingur. (Leikin tvöföld umferð)

1. deild karla: Akureyri, HK, ÍBV U, KA, Mílan, Stjarnan U, Valur U, Þróttur. (Leikin þreföld umferð)

2. deild karla: Akureyri U, FH U, Fram U, Grótta U, Haukar U, HK U, Hvíti riddarinn, ÍR U. (Leikin þreföld umferð)

Úrvalsdeild kvenna: Fjölnir, Fram, Grótta, Haukar, ÍBV, Selfoss, Stjarnan, Valur. (Leikin þreföld umferð)

1. deild kvenna: Afturelding, FH, Fram U, Fylkir, HK, ÍR, KA/Þór, Valur U, Víkingur. (Leikin þreföld umferð)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert