Ísland tryggði EM-sætið með glæsibrag

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er komið í lokakeppni Evrópumótsins í Króatíu, sem fram fer í byrjun næsta árs, eftir öruggan 34:26 sigur á Úkraínu í troðfullri Laugardalshöll í kvöld. Ísland hafnar í þriðja sæti í sínum riðli og fer á Evrópumótið með því að vera með bestan árangur allra liða sem enduðu í 3. sæti síns riðils. 

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og var staðan 3:3 eftir fjórar mínútur. Þá komu tvö mörk í röð af línunni hjá Íslandi, fyrst frá Bjarka Má Gunnarssyni og síðan Arnari Frey Arnarssyni og var staðan þá orðin 5:3 og munurinn í fyrsta skipti meira en eitt mark. Ísland komst svo fjórum mörkum yfir eftir tólf mínútna leik, 8:4.

Úkraínumenn voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp og tókst þeim að jafna í 10:10 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Íslenska liðið kláraði fyrri hálfleikinn hins vegar af krafti og náði fínu forskoti á nýjan leik. Janus Daði Smárason skoraði síðasta mark hálfleiksins og kom Íslandi í 18:13 og var það í fyrsta skipti sem munurinn fór upp í fimm mörk.

Sóknarleikurinn var að ganga eins og smurð vél og Aron Rafn Eðvarðsson byrjaði að verja meira eftir því sem leið á hálfleikinn og var útlitið því gott í leikhléi. Aron Rafn varði alls átta skot í fyrri hálfleik og Ólafur Guðmundsson var markahæstur með fjögur mörk. Aron Pálmarsson, Rúnar Kárason og Guðjón Valur Sigurðsson komu þar á eftir með þrjú í annars jöfnu og góðu íslensku liði.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn á því að komast sex mörkum yfir, 19:13 og skömmu síðar sjö mörkum yfir, 21:14. Úkraínumenn minnkuðu muninn í fjögur mörk þegar 13 mínútur voru til leiksloka, 26:22. 

Þá tók Geir Sveinsson, þjálfari Íslands leikhlé og við það styrktust strákarnir okkar og spiluðu lokamínúturnar gríðarlega vel og tryggðu sér EM-sætið með stæl. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk og Ólafur Guðmundsson og Aron Pálmarsson gerðu fimm. Aron Rafn var mjög góður í markinu og varði hann alls 15 skot í markinu. 

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leik­inn í Morg­un­blaðinu í fyrra­málið.

Ísland 34:26 Úkraína opna loka
60. mín. Leik lokið Glæsilegur sigur. Ísland er komið á EM 2018. Til hamingju Íslendingar.
mbl.is