„Kannast vel við mig“

Hreiðar Levý Guðmundsson í búningi Gróttu.
Hreiðar Levý Guðmundsson í búningi Gróttu. Ljósmynd/Grótta

„Mér líst mjög vel á mig á Nesinu og horfi björtum augum til næsta tímabils með Gróttu,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handknattleik og silfurverðlaunahafi frá Peking, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld en hann samdi í gær við Gróttu til tveggja ára.

Hreiðar er fluttur heim eftir að hafa leikið síðast með Halden í Noregi en hann hefur einnig leikið í Svíþjóð og Þýskalandi á undanförnum árum, auk þess að spila með Akureyri um skeið. Hann á 146 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.

„Ég kannast vel við mig þarna, enda uppalinn KR-ingur og spilaði með meistaraflokki Gróttu/KR í þrjú ár á sínum tíma,“ sagði Hreiðar sem upphaflega var búinn að semja við KR-inga um að leika með þeim. Í vor ákváðu KR-ingar síðan að senda ekki lið á Íslandsmótið í vetur.

„Það þurfti að loka þeim málum, þar sem ég var búinn að skrifa undir samning við KR, en þegar það var frá gekk þetta nokkuð hratt fyrir sig. Það komu nokkur félög til greina, þetta var ekki auðvelt val en ég er viss um að ég á góðan tíma fram undan með Gróttu,“ sagði Hreiðar sem auk þess að verja mark liðsins mun sjá um þjálfun á markvörðum yngri flokka félagsins.

„Ég held að við verðum með ágætislið í vetur því þótt tveir sterkir leikmenn hafi farið eru aðrir komnir í staðinn eins og sænska skyttan Max Jonsson sem ég þekki vel og spilaði með hjá Nötteröy í hálfan vetur,“ sagði Hreiðar Levý.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert