„Fyrst og fremst orðlaus“

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, og Arnar Birkir Hálfdánsson.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, og Arnar Birkir Hálfdánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er fyrst og fremst orðlaus eftir svona leik, það er ekki hægt að segja nokkurn skapaðan hlut,“ sagði hundsvekktur Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir 43:26 stórtap gegn FH í fyrstu umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

„Menn mættu einfaldlega ekki til leiks, við erum með 20% sóknarnýtingu í fyrri hálfleik á meðan þeir eru með 80% nýtingu, það er ekki boðlegt í Olís-deildinni. Við erum í smá meiðslum og alls konar veseni en það skiptir engu máli þegar inn á völlinn er komið. Menn eiga að mæta til leiks og spila fyrir félagið, það er bara þannig.“

Hvað fór eiginlega úrskeiðis?

„Við náum ekki að klukka þá í vörn, erum að skjóta fáránlega illa bæði fyrir utan og þegar við komumst í gegn og þar tapast leikurinn hreinlega á fyrstu fimmtán mínútum. Eftir það erum við bara að elta og æfa nýtt, það er ekkert að marka það.“

Hvernig koma menn til baka eftir 17 marka tap í fyrsta leik tímabilsins?

„Það er fyrst og fremst andlegt, við þurfum að snúa bökum saman og halda áfram. Þetta er langt mót og fall er fararheill, eigum við ekki að hafa það þannig?“

Fram mætir Stjörnunni í Garðabænum strax á mánudaginn kemur og Guðmundur er feginn að eiga annan leik eftir svo skamman tíma.

„Sem betur fer, menn geta svekkt sig aðeins í kvöld og svo höldum við bara áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert