Wilbek orðinn borgarstjóri í Danmörku

Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek. AFP

Ulrik Wilbek, fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur í handknattleik og stórlax innan handboltahreyfingarinnar til margra ára, verður næsti borgarstjóri Viborg í Danmörku.

Wilbek, sem hætti hjá danska handknattleikssambandinu í fyrra eftir að hafa farið á bak við Guðmund Guðmundsson þáverandi landsliðsþjálfara á Ólympíuleikunum í Ríó, var oddviti Venstre-flokksins í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku sem fram fóru í gær.

Wilbek hætti afskiptum af handknattleik í ágúst á síðasta ári eftir að hafa sem íþróttastjóri danska sambandsins fundað með sex leikmönnum danska landsliðsins á ÓL og borið það upp hvort reka ætti Guðmund á miðjum leikum. Það féll í grýttan jarðveg, Wilbek hrökklaðist frá en Danir urðu meistarar.

Síðan Wilbek hætti hefur hann stefnt að ferli í pólitík þrátt fyrir að hafa fengið mörg tilboð um þjálfun. Hann er sigursælasti þjálfari Danmerkur í sögunni og vann meðal annars ólympíugull með kvennalandsliðinu og fjóra Evróputitla; tvo með kvennalandsliðinu og tvo með karlalandsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert