Sömu lið mætast þriðja árið í röð

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, og Greta Kavaliuskaite.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, og Greta Kavaliuskaite. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórleikurinn í 8-liða úrslitum Coca Cola bikarkeppni kvenna í handbolta verður viðureign bikarmeistara Stjörnunnar og ÍBV í Garðabænum. Þessi sömu lið eru að mætast í 8-liða úrslitum þriðja árið í röð en mbl.is ræddi við þjálfarana á blaðamannafundi í hádeginu. 

„Þetta var engin óskaniðurstaða en ég vissi þetta. Síðan ég tók við ÍBV hef ég dregist á móti Stjörnunni í 8-liða úrslitum. Þetta er því þriðja árið í röð. Þegar ég hitti Harra (þjálfara Stjörnunnar) áður en dregið var þá sagði ég við hann að þetta væri bara spurning um hvort liðið fengi heimaleikinn. Ég er bara fúl yfir því að fá ekki heimaleik því það hefði skipt miklu máli fyrir okkur,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, þegar mbl.is ræddi við hana. 

Spurð um hvort ÍBV sé lið sem geti unnið titil eða titla á keppnistímabilinu segist Hrafnhildur vera þeirrar skoðunar. „Ég er gríðarlega ánægð með leikmannahópinn sem ég er með. Við erum með virkilega flott lið og klárlega jafn gott lið og hin toppliðin. Leikir eins og á móti Stjörnunni eru 50/50 og það er raunin með þennan bikarleik. Mér sýnist að það séu fimm lið sem hafi getuna til að verða bikarmeistarar.“

„Skrifað í skýin“

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að Stjarnan þurfi að spýta í lófana upp á framhaldið að gera. „Eru ekki öll þessi lið með lið til að vinna bikarinn? Við höfum ekki verið að spila neitt sérstaklega vel upp á síðkastið en það er langt í þessa leiki. Það er alltaf best að vera á heimavelli og ég er því feginn að þurfa ekki að fara til Vestmannaeyja þótt þar sé gott að vera. Við Hrabba (Hrafnhildur þjálfari ÍBV) ræddum saman áðan og vissum að þetta yrði uppi á teningnum. Þetta var skrifað í skýin en það verður bara gaman að takast á við sterkt Vestmannaeyjalið,“ sagði Halldór Harri í samtali við mbl.is. 

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert