„Sýnir metnað okkar í þjóðaríþróttinni“

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við erum í skýjunum með tilnefninguna og að fá þar með að halda heimsmeistaramótið ásamt félögum okkar í Danmörku og Noregi,“ sagðu Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, í fréttatilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í dag.

Í dag var tilkynnt að Ísland, Danmörk og Noregur muni halda heimsmeistaramót karla í handknattleik í sameiningu árið 2031 en Alþjóða handknattleikssambandið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag.

Ákveðið var að heimsmeistaramótið 2029 færi fram í Frakklandi og Þýskalandi og í framhaldi af því yrðu Norðurlandaþjóðirnar þrjár mótshaldarar árið 2031.

Leikirnir fara fram í nýrri þjóðarhöll

Þetta verður í annað skipti sem heimsmeistaramótið fer fram á Íslandi en það var haldið hér á landi árið 1995, þá ekki í samvinnu við aðra þjóð.

„Þessi mikli heiður sýnir líka metnað okkar í þjóðaríþróttinni. Þetta sameiginlega átak okkar lyftir ekki bara íþróttinni hér á Íslandi heldur sýnir líka að minni þjóðir eiga möguleika að taka þátt í skipulagningu stórmóta með alþjóðlegu samstarfi,” sagði Guðmundur.

Leikirnir hér á landi fara fram í nýrri þjóðarhöll sem reisa á í Laugardalnum, rétt hjá Laugardalshöllinni, á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert