Við mættum ekki til leiks

Adam Thorstensen.
Adam Thorstensen. mbl.is/Ottar Geirsson

„Við mættum ekki til leiks, allir með tölu,“ sagði Adam Thorstensen, markmaður Stjörnunnar í handbolta eftir 32:24 tap gegn Aftureldingu, í oddaleik í átta liða úrslitum í Íslandsmótinu.

 „Það er ótrúlega svekkjandi að enda þetta svona. Við eigum svo mikið meira inni en þetta,“ sagði Adam í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

„Brynjar (Brynjar Vignir Sigurjónsson, markmaður Aftureldingar) varði eins og ég veit ekki hvað í fyrri hálfleik sem kannski dró kjarkinn úr okkur sóknarlega,“ sagði Adam en Brynjar átti frábæran leik og varði 12 skot áður en hann var tekinn út af.

Fyrstu tveir leikir liðanna voru mjög jafnir, fyrsti endaði 29:28 fyrir Aftureldingu á heimavelli og annar 27:25 fyrir Stjörnunni.

„Ég veit ekki hvað var öðruvísi í dag. Mér persónulega fannst spennustigið vera eins og fyrir hvern annan leik svo ég veit ekki hvað það var í dag,“ sagði Adam en ef Stjarnan hefði unnið einvígið hefðu þeir mætt Val í undanúrslitum.

„Þessi leikur sýnir ekki hvernig lið við erum. Við höfum átt hörkuleiki við Val, síðasti leikur gegn þeim var jafn og við hefðum gefið þeim alvöru leik,“ sagði Adam en Stjarnan er í staðin komin í sumarfrí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert