Flautað til leiks klukkan 14

Evrópumeistarar Spánverja mættu til Suður-Afríku í gærkvöldi, síðastir allra liða.
Evrópumeistarar Spánverja mættu til Suður-Afríku í gærkvöldi, síðastir allra liða. Reuters

Mikil eftirvænting ríkir í Suður-Afríku, enda verður flautað til leiks á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu þar í landi í dag. Þetta er í 19. heimsmeistaramótið en það fyrsta var haldið í Úrúgvæ árið 1930.

Þetta er í fyrsta skipti sem keppnin er haldin í Afríku og spenna heimamanna fyrir upphafi keppninnar er enn meiri þar sem þeir eiga aðild að opnunarleiknum í dag. Suður-Afríka mætir Mexíkó í fyrsta leik HM klukkan 14, á Soccer City-leikvanginum glæsilega í Jóhannesarborg.

Það skiptir jafnan miklu máli fyrir keppnina að gestgjöfum vegni ágætlega. Suður-Afríka er hinsvegar talin veikasta lið A-riðilsins og á því á brattann að sækja. Liðið verður að fá eitthvað út úr leiknum í dag til að eiga von um að komast áfram. Steven Pienaar, leikmaður Everton, er lykilmaður í liði Suður-Afríku en hjá Mexíkó má nefna Rafael Márquez, miðvörðinn öfluga frá Barcelona, og Carlos Vela, sóknarmann Arsenal.

Forlán og Ribéry á ferðinni

Seinni leikur dagsins er einnig í A-riðli þegar tvær heimsmeistaraþjóðir, Úrúgvæ, sem vann 1930 og 1950, og Frakkland, sem vann 1998, eigast við í Höfðaborg klukkan 18.30. Þar verður fróðlegt að fylgjast með Diego Forlán, hinum marksækna framherja Úrúgvæ, og Franck Ribéry, franska sóknartengiliðnum, tveimur leikmönnum sem líklegir eru til að setja svip sinn á keppnina.

*Morgunblaðið mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um heimsmeistarakeppnina og á mbl.is verða textalýsingar frá öllum leikjunum í Suður-Afríku. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert