Scolari: Sambandið ræður framtíðinni

Luiz Felipe Scolari, landsliðsþjálfari Brasilíu, vildi ekkert gefa út framtíð sína í starfi eftir ósigurinn gegn Hollandi í kvöld, 0:3, í leiknum um bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

„Það er forsetinn sem tekur ákvörðun um framhaldið. Við munum skila lokaskýrslu um mótið og svo er það í hans höndum að skilgreina hvað þarf að gera," sagði Scolari við fréttamenn en fjölmargir Brasilíumenn hafa heimtað að hann verði tafarlaust rekinn eftir ófarir liðsins í undanúrslitunum og bronsleiknum, gegn Þjóðverjum og Hollendingum.

„Ég ætla ekki að ræða mína framtíð við ykkur. Við hefðum gert þetta svona, hvernig sem leikurinn hefði farið. Við verðum að hrósa okkar mönnum fyrir frammistöðuna í mótinu enda þótt endaspretturinn hafi ekki verið góður. Við lékum ekki illa í dag.

Ég hef stýrt liðum á þremur heimsmeistaramótum og verið í hópi fjögurra efstu í öll skiptin. Ég veit að 7:1 tapið er það versta í sögunni. En ég sé framfarir frá tveimur síðustu mótum. Menn horfa öðrum augum á þetta eftir að liðið fær á sig sjö mörk, og svo eitt í viðbót eftir tvær mínútur í næsta leik.

Þessi kynslóð leikmanna þarf ekki að vera í sárum. Við erum í hópi fjögurra fremstu liða heims og unnum Álftbikarinn í fyrra. Ég sé ekki hversvegna ég ætti að gagnrýna liðið fyrir frammistöðuna í dag. Við lékum vel, unnum okkur inní leikinn eftir að hafa lent undir og fengum okkar færi," sagði Luiz Felipe Scolari.

Luiz Felipe Scolari fylgist með leiknum við Hollendinga í kvöld.
Luiz Felipe Scolari fylgist með leiknum við Hollendinga í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert