Með skæruliðatækni að vopni

Íslenska landsliðið fagnar eftir að hafa tryggt sér farseðilinn til …
Íslenska landsliðið fagnar eftir að hafa tryggt sér farseðilinn til Rússlands með sigri á Kosovo á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

Árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur vakið furðu víða. Breska vikuritið The Economist gerði um helgina tilraun til að greina árangur íslenska liðsins, sem eins og blaðið bendir á gengur þvert á öll líkindi. Er niðurstaða blaðsins að liðið hafi tekið upp baráttuaðferðir skæruliða með undraverðum árangri.

Í greininni segir að þótt Ísland sé í 19. sæti heimslistans í knattspyrnu sé ekkert sjálfsagt við að landsliðið hafi tryggt sér sæti á HM í Rússlandi næsta sumar. Hollendingar séu í 11. sæti listans og muni sitja heima. Með Íslandi í riðli voru Króatar, Úkraínumenn og Tyrkir, sem Economist bendir á að hafi allir náð í undanúrslit í HM einhvern tímann á undanförnum 20 árum og spyr hvernig land með svo lítinn leikmannagrunn og rétt fjögurra klukkustunda dagsbirtu á grimmilega löngum vetrum hafi farið að því setja saman lið sem geti sigrað heiminn.

Ætti að vera uppskrift að stórslysi

Í greininni eru kunnuglegar upplýsingar um bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar innanhúss á Íslandi og heljarstökk í menntun þjálfara. Afraksturinn sé hópur frambærilegra leikmanna með Gylfa Þór Sigurðsson fremstan í flokki. Allir 25 leikmenn íslenska liðsins leiki fyrir erlend félagslið, þar af sex á Bretlandi og tveir í Þýskalandi. Það sé hins vegar einsdæmi af þeim evrópsku liðum, sem tryggt hafi sér farseðil til Rússlands, að enginn leikmaður íslenska liðsins spili með liði, sem leikur í Meistaradeild Evrópu.

Upplýsingar um landsleiki eru fátæklegri en ætla mætti og fundu blaðamenn Economist aðeins áreiðanlegar tölur fyrir leiki í Evrópu undanfarin átta ár. Í úrtaki blaðsins voru 53 lið, sem öll höfðu leikið minnst 30 leiki. Af þeim var Ísland í 40. sæti þegar mælt er hversu mikið liðin voru með boltann í leikjum sínum. „Að leyfa andstæðingnum að stjórna leiknum er venjulega uppskrift að stórslysi,“ segir í blaðinu. „Fimm sjöttu hlutar af breytileikanum í stigasöfnun landsliða á tímabilinu ráðast af því hve mikið þau eru með boltann, svo sterkt er sambandið. Ísland var að meðaltali með boltann 46,9% af leiknum, sem að meðaltali hefði átt að duga til að ná í 1,1 stig í leik – rétt um helming þeirra stiga sem þarf til að eiga möguleika á að komast á heimsmeistaramótið.“

Síðan segir að það sama eigi við þegar skoðað er hversu mörg marktækifæri liðið skapi og leyfi andstæðingnum að komast í. Liðið hafi að meðaltali átt 2,6 færri skot að marki en andstæðingurinn, sem einnig hefði átt að leiða til þess að það fengi 1,1 stig að meðaltali. Íslenska liðið var hins vegar með 1,5 stig að meðaltali í þeim 47 leikjum, sem voru í úrtaki blaðsins. „Árangurinn í yfirstandandi heimsmeistarakeppni er enn meira sláandi, liðið hefur umbreytt því að vera með boltann aðeins 41,6% af leiktíma í 2,2 stig í leik að meðaltali og náð sér með undraverðum hætti í miða til Rússlands,“ segir í blaðinu.

Eins og Atletico Madrid eða Leicester?

Blaðið segir að aðeins tvennt geti skýrt að hægt sé að spila yfir getu miðað við hvað lítið liðið er með boltann. Sú fyrri er að íslendingar hafi í raun komist að því hvernig skapa megi betri marktækifæri en andstæðingurinn og verjast af krafti um leið. Atletico Madrid hafi gert hið sama og fengið að meðaltali minnst tvö stig í leik þrátt fyrir að vera með boltann minna en helming leiktímans. Árangur Atletico Mardrid sé engin tilviljun.  

Þá síðari sé að finna með því að fara til Leicester. Aðeins eitt annað dæmi er um lið, sem hefur verið með boltann minna en helming leiktíma, en samt fengið meira en tvö stig að meðaltali í leik. Það er Leicester City, sem varð Englandsmeistari 2016. Meistaratitilinn mátti þakka að sóknarmenn liðsins nýttu færi sín afar vel og andstæðingarnir bruðluðu að sama skapi með sín færi. Liðið skoraði þegar upp var staðið 32 mörkum meira en það fékk á sig, næstum helmingi meira en tækifærin í leikjum þeirra sögðu til um. Þeir gáfu hins vegar jafnoft færi á sér og þeir komust í færi. Lukkan entist hins vegar aðeins eitt tímabil.

Economist segir að upplýsingar um landsleiki séu ekki nógu traustar til að segja til um hversu góð færi íslenska liðið hafi skapað sér, en í undankeppninni fyrir HM hafi það að meðaltali átt 2,7 skotum fleiri að marki en andstæðingurinn, sem bendi til þess að árangur þess eigi meira skylt við Atletico Madrid en Leicester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert