Risatap gegn Tékkum

Ísland þarf að vinna Egyptaland á laugardaginn í lokaumferð C-riðils HM í handbolta í Katar til að vera öruggt um að komast áfram í 16-liða úrslitin, eftir hrikalegt tap gegn Tékklandi í kvöld, 36:25.

Í lokaumferðinni mætast einnig Alsír og Tékkland, og Svíþjóð og Frakkland.

Staðan í riðlinum fyrir lokaumferðina: Svíþjóð 7, Frakkland 7, Egyptaland 5, Ísland 3, Tékkland 2, Alsír 0.

Tékkar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik en stðan að honum loknum var 21:11. Þeir byrjuðu leikinn mun betur og komust í 8:3 áður en Aron Kristjánsson tók leikhlé strax á 9. mínútu. Það skilaði engu. Petr Stochl varði frábærlega í marki Tékka og sóknarleikur Íslands minnti bara á leikinn við Svía á föstudag, hægur og fyrirsjánlegur.

Alla grimmd vantaði svo í vörnina og Björgvin Páll Gústavsson fann sig ekki í markinu. Aron Rafn Eðvarðsson leysti hann af og saman vörðu þeir 7 gegn 17 skotum Stochl í fyrri hálfleik, ef allt er talið.

Filip Jícha sýndi strax að engin magakveisa háði honum í dag, líkt og í tveimur fyrstu leikjum mótsins, og skoraði átta mörk í fyrri hálfleiknum. Liðsfélagi hans í Kiel, Aron Pálmarsson, besti maður Íslands á mótinu til þessa, náði sér ekki á strik og enginn steig upp í hans stað. Óboðlegur sóknarleikurinn hjálpaði Tékkum að skora mörg ódýr mörk og strákarnir voru allt of lengi að skila sér tilbaka í vörnina.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö góð mörk í röð úr vinstra horninu og minnkaði muninn í sjö mörk, 18:11, þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Tékkar skoruðu svo þrjú í röð og voru 10 mörkum yfir í hálfleik, 21:11.

Aron Pálmarsson kom ekkert við sögu í seinni hálfleiknum, eftir að hafa fengið öxl eins Tékkans í andlitið undir lok fyrri hálfleiksins. Fleiri leikmenn fengu hvíld í seinni hálfleiknum en íslenska liðinu tókst aldrei að ógna forskoti Tékka eftir hlé, jafnvel þó að Björgvin kæmi aftur í markið og stæði sig mjög vel. Munurinn fór mest niður í sjö mörk og lokatölur urðu 36:25.

Ísland 25:36 Tékkland opna loka
60. mín. Arnór Atlason (Ísland) skýtur framhjá Skot af vörninni og framhjá.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert