Makedónía með fullt hús í okkar riðli

Kiril Lazarov átti enn einn stórleikinn sinn.
Kiril Lazarov átti enn einn stórleikinn sinn. AFP

Króatía vann Ungverja, 31:28 og Makedónía fór létt með Angóla, 31:22, í leikjum sem voru að ljúka á HM í handbolta karla í Frakklandi. 

Þegar korter var eftir af leik Króata og Ungverja voru Kóatarnir aðeins einu marki yfir en þeir kláruðu leikinn vel og uppskáru stigin tvö. Króatía hefur þar með unnið báða leiki sína á mótinu til þessa á meðan Ungverjar eru án stiga. 

Manuel Strlek skoraði sex mörk fyrir Króata eins og Gergely Harsaniy og Zsolt Balogh fyrir Ungverja. 

Makedónía er einnig með fullt hús stiga í B-riðli okkar Íslendinga á meðan Angóla er án stiga eins og við. Makedónía hefur vissulega spilað tvö töluvert auðveldari leiki en íslenska liðið. 

Kiril Lazarov var eins og svo oft áður, markahæstur í liði Makedóna með tíu mörk og Sergio Lopes gerði fimm fyrir Angóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert