Ánægður með traust Geirs

Björgvin Páll Gústavsson og Arnar Freyr Arnarsson fagna.
Björgvin Páll Gústavsson og Arnar Freyr Arnarsson fagna. AFP

Arnar Freyr Arnarsson er einn af nýju strákunum í íslenska landsliðinu sem spilar á heimsmeistaramótinu í handbolta í Frakklandi. Arnar Freyr, sem er stór og stæðilegur línumaður og sterkur varnarmaður, hefur sýnt fína takta og ekki er langt í að hann eigni sér línustöðuna og hafi þar með betur í samkeppninni við Kára Kristján Kristjánsson og Vigni Svavarsson.

Arnar Freyr er 21 árs gamall uppalinn Framari en gekk í raðir sænska meistaraliðsins Kristianstad síðastliðið sumar og samdi til þriggja ára. Með honum þar leika landsliðsmennirnir Ólafur Andrés Guðmundsson og Gunnar Steinn Jónsson.

Morgunblaðið settist niður með Arnari Frey á hóteli landsliðsins í gær en Íslendingar eiga eftir að spila tvo leiki í riðlinum. Þeir mæta Angólamönnum í kvöld og leika síðan við Makedóníumenn á fimmtudaginn. Íslenska liðið verður að vinna þessa tvo leiki til að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslitin.

„Það er ljóst að við þurfum tvo sigra til að vera öruggir upp úr riðlinum og við munum leggja enn meira á okkur til að það verði að veruleika. Möguleikinn er enn til staðar að ná þriðja sætinu og það væri vitaskuld betra að ná því og fá þá kannski eitthvað auðveldari andstæðing í 16-liða úrslitunum,“ sagði Arnar Freyr við Morgunblaðið.

Spurður út í leikinn við Angólamenn sagði Arnar Freyr; ,,Angóla er sýnd veiði en ekki gefin. Angólamennirnir eru svolítið villtir og spila ekki agaðan handbolta. Það verður ekki vanmat í gangi hjá okkur gagnvart þeim og þetta verður verðugt verkefni,“ sagði Arnar Freyr.

Viðtalið við Arnar Frey má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert