Frakkar eða Noregur yrði mótherji Íslands

Frakkinn Timothey N'Guessan brýst í gegnum vörn Rússa í kvöld.
Frakkinn Timothey N'Guessan brýst í gegnum vörn Rússa í kvöld. AFP

Frakkar völtuðu yfir Rússa í A-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik þegar þjóðirnar áttust við í kvöld. Úr varð ellefu marka sigur Frakka, 35:24.

Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar og þeir voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 16:11, en bættu um betur eftir hlé sem endaði með ellefu marka sigri. Adrien Dipanda var markahæstur Frakka með átta mörk en hjá Rússum skoraði Daniil Shishkarev sex.

Með þessu tryggðu Frakkar sér toppsæti A-riðilsins, og einnig er ljóst að Noregur endar í öðru sæti. Það þýðir, að ef Ísland kemst í 16-liða úrslit verður annað hvort þeirra liða mótherjinn þar.

Ef Ísland hafnar í fjórða sæti síns riðils mætir liðið Frökkum, en nái Ísland þriðja sætinu verða það Norðmenn sem bíða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert