Dagur og Kristján kláruðu riðlana með stæl

Dagur Sigurðsson ræðir við Niclas Pieczkowski í leiknum í dag.
Dagur Sigurðsson ræðir við Niclas Pieczkowski í leiknum í dag. AFP

Þjóðverjar og Svíar unnu lokaleiki sína í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik með stæl í kvöld.

Þjóðverjar mættu Króötum í úrslitaleik um efsta sæti C-riðils. Þeir náðu fljótt frumkvæðinu og voru yfir í hálfleik 13:9. Leikurinn jafnaðist eftir hlé, áður en lærisveinar Dags Sigurðssonar bættu í. Þjóðverjar skoruðu sex síðustu mörkin og uppskáru að lokum glæsilegan átta marka sigur, 28:20.

Patrick Wiencek fór fyrir Þjóðverjum með sex mörk og Kai Hafner skoraði fimm. Þjóðverjar unnu alla leiki sína í riðlinum og mæta Katar í 16-liða úrslitunum. Króatar mæta Egyptum.

Svíar gulltryggðu annað sætið

Kristján Andrésson og lærisveinar hans hjá Svíþjóð tryggðu sér svo annað sæti D-riðils með öruggum sigri á Egyptum, 33:26.

Svíar voru sex mörkum yfir í hálfleik, 15:9, sem lagði grunninn að sigrinum. Skipti þá engu þótt jafnræði væri með liðunum eftir hlé, bilið var einfaldlega of breitt fyrir Egypta að brúa. Lokatölur 33:26.

Niclas Ekberg var frábær hjá Svíum og skoraði úr öllum átta skotum sínum. Jerry Tollbring nýtti sömuleiðis öll sín sex skot.

Svíar hafna í öðru sæti D-riðils og mæta annaðhvort Ungverjum eða Hvít-Rússum, en þær þjóðir mætast í kvöld. Eina tap Svía kom gegn Dönum, sem þegar hafa tryggt sér toppsætið.

Niclas Ekberg skorar eitt af átta mörkum sínum gegn Egyptum.
Niclas Ekberg skorar eitt af átta mörkum sínum gegn Egyptum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert