Kristján áfram en Guðmundur úr leik

Kristján Andrésson hafði ástæðu til að fagna í dag.
Kristján Andrésson hafði ástæðu til að fagna í dag. AFP

Svíar eru komnir áfram í átta liða úrslit HM í handbolta karla. Sænska liðið vann ansi þægilegan 41:22 sigur á Hvíta-Rússlandi. Kristján Andrésson þjálfar sænska liðið. Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu eru hins vegar úr leik eftir 27:25 tap gegn Ungverjum. 

Eins og lokatölurnar gefa til kynna áttu Hvít-Rússar aldrei möguleika í Svía. Staðan í hálfleik var 17:11 og var eftirleikurinn ansi auðveldur fyrir Svía í seinni hálfleik. Sænska liðið mætir Frökkum í átta liða úrslitum á þriðjudag. 

Jim Gottfridsson skoraði átta mörk fyrir Svía og Niklas Ekberg sjö. 

Ungverjar voru yfir gegn Dönum nánast allan leikinn, þrátt fyrir það voru Danir aldrei langt undan. Danir jöfnuðu í 23:23 þegar skammt var eftir en Ungverjar voru sterkari þegar mest lá undir og tókst þeim að slá Guðmund og lærisveina hans úr leik. 

Markaskorun Ungverja var ansi jöfn en Mate Lekai skoraði sex mörk. Mikkel Hansen skoraði átta mörk fyrir Dani og var hann sérstaklega góður í fyrri hálfleiknum. 

Ungverjar mæta Norðmönnum í átta liða úrslitunum á þriðjudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert