Vilja kveðja Dag með stjörnuleiknum

Dagur Sigurðsson stýrði Þýskalandi í tvígang til verðlauna á stórmótum.
Dagur Sigurðsson stýrði Þýskalandi í tvígang til verðlauna á stórmótum. AFP

Þrátt fyrir að ekki hafi gengið sem skyldi hjá Þýskalandi á HM í handbolta í Frakklandi þá eru forráðamenn þýska handknattleikssambandsins afar þakklátir Degi Sigurðssyni fyrir hans störf sem þjálfari liðsins.

Dagur er nú hættur sem þjálfari liðsins en hann ætlar að taka við landsliði Japan, sem verður á heimavelli á næstu Ólympíuleikum. Dagur stýrði Þýskalandi í tvö og hálft ár og gerði liðið afar óvænt að Evrópumeistara fyrir ári, og stýrði því til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst.

Nú vilja Bob Hanning og félagar hjá þýska handknattleikssambandinu kveðja Dag með viðeigandi hætti, á stjörnuleik í Leipzig þann 3. febrúar en þá mætir þýska landsliðið úrvalsliði úr þýsku 1. deildinni. Ljóst er að að minnsta kosti tveir Íslendingar verða í höllinni því Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson voru valdir í úrvalslið þýsku deildarinnar.

„Það er hugsanlegt að Dagur verði með í stjörnuleiknum,“ sagði Bob Hanning við Deutschen Presse-Agentur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert