Víkingar sneru taflinu við

Jóhann Már Leifsson skoraði eitt marka Akureyringa.
Jóhann Már Leifsson skoraði eitt marka Akureyringa. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

SA Víkingar unnu sinn fimmta leik af fyrstu sex á Íslandsmóti karla í íshokkí í gærkvöld þegar þeir lögðu Björninn að velli, 5:4, í Skautahöllinni á Akureyri.

Björninn byrjaði þó með látum og komst í 3:0 á fyrstu níu mínútum leiksins. Aimas Fiscevas, Artjoms Dasutins og Alexander Medvedev skoruðu mörkin.

Sigurður Sigurðsson og Jusi Sipponen minnkuðu muninn fyrir SA Víkinga áður en fyrsta leikhluta lauk og í öðrum hluta gerðu Akureyringar þrjú mörk og voru komnir í 5:3. Jordan Steiger, Jóhann Leifsson og Sipponen voru þar á ferð.

Andri Helgason minnkaði muninn fyrir Björninn um miðjan þriðja leikhlutann, 5:4, og þar við sat. Björninn beið sinn annan ósigur í fyrstu fimm leikjunum. 

SA Víkingar eru með 15 stig, Björninn 9, Esja 6 en SR ekkert stig. Esja hefur aðeins leikið þrjá leiki enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert