Þetta var afar mikilvægur sigur

Egill Þormóðsson, leikmaður Esju.
Egill Þormóðsson, leikmaður Esju. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Agli Þormóðssyni, leikmanni UMFK Esju, var létt þegar mbl.is ræddi við hann eftir sigur Esju gegn SA Ví­kingum í Skautahöllinni á Akureyri í­ kvöld. Esja hafði aðeins haft betur í einum leik af síðustu fjórum deildarleikjum sínum: „Þetta var rosalega mikilvægur sigur. Við höfum verið að ströggla aðeins uppi á síðkastið og síðasti sigurleikur kom gegn SR einhvern tímann í haust. Þannig þetta var gríðarlega góður sigur fyrir móralinn og andlegu hliðina,“ sagði Egill kampakátur í­ leikslok.

SA Ví­kingar gerðu harða atlögu að marki Esju í­ lokaleikhlutanum og skorðu tvö mörk gegn engu og jöfnuðu metin í 5:5. Aðspurður sagði Egill að ekkert hefði verið að fara um leikmenn Esju: „Við vorum klaufar að fá mark á okkur svona snemma í leikhlutanum. Hitt markið var síðan „power-play“ mark þannig að það var bara vel gert hjá þeim. Við vorum ekkert smeykir um að við myndum missa sigurinn úr höndum okkar,“ sagði Egill um þróun leiksins.

Egill var sammála blaðamanni þegar hann var spurður út í­ framhaldið og hvort þetta væri þriggja hesta kapphlaup um sætin tvö í úrslitakeppninni: „Við erum hvergi nærri hættir og okkur finnst við eiga dálítið inni. Við stefnum á að taka þrjú stig í­ næsta leik og það er nóg eftir af mótinu. Þetta verður þriggja hesta kapphlaup fram á lokametrana,“ sagði Egill og dreif sig svo til búningsherbergisins til þess að fagna sigrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert