ÍR lék meistara KR grátt og vann oddaleikinn

ÍR-ingar fagna glæsilegum sigri í Vesturbænum í kvöld.
ÍR-ingar fagna glæsilegum sigri í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR-ingar slógu í kvöld Íslandsmeistara KR út í átta liða úrslitunum á Íslandsmóti karla í körfuknattleik með því að vinna sannfærandi sigur á þeim, 93:74, í oddaleik liðanna í Vesturbænum. ÍR vann einvígið 2:1 og mætir Keflavík í undanúrslitunum.

Leikskýrslan.

ÍR-ingar byrjuðu af miklum krafti og komust í 13:1 og síðan í 18:6. KR-ingar söxuðu á forskotið jafnt og þétt, minnkuðu muninn í 18:15, og staðan eftir fyrsta leikhlutann var 20:15, ÍR í hag.

KR minnkaði muninn í 22:20 í byrjun annars leikhluta en þá tóku ÍR-ingar mikinn kipp á ný, breyttu stöðunni í 32:20 og síðan í 38:22. Staðan í hálfleik var 46:29.

ÍR jók forskotið enn í þriðja leikhluta, komst í 52:30, 56:34 og 61:39. Staðan að leikhlutanum loknum var 64:41. Hreggviður Magnússon fór á kostum og skoraði 14 stig fyrir ÍR-inga í þriðja leikhluta.

KR-ingar áttu aldrei möguleika á að vinna upp forskot ÍR-inga í fjórða leikhluta, enda dró enn frekar í sundur með liðunum til að byrja með og ÍR komst í 67:41. KR náði að laga stöðuna í 69:52 en Breiðhyltingar héldu öruggum tökum á leiknum síðustu mínúturnar og komust í 91:69 rétt fyrir leikslok.

Hreggviður Magnússon skoraði 29 stig fyrir ÍR, Tahirou Sani 19, Nate Brown 13 og Sveinbjörn Claessen 13. Hjá KR var Avi Fogel með 25 stig og Joshua Helm 21.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert