Snæfell í úrslit eftir frábæran endasprett

Justin Shouse leikmaður Snæfells.
Justin Shouse leikmaður Snæfells. mbl.is/Golli

Snæfell tryggði sér sæti í úrslitum Iceland Express deildarinnar í kvöld með 116:114-sigri gegn Grindavík í framlengdum leik. Justin Shouse skoraði síðustu körfu leiksins 11 sekúndum fyrir leikslok en Grindavík náði ekki að skora í síðustu sókninni. Snæfell mætir sigurliðinu úr viðureign Keflavíkur og ÍR í úrslitum en sá leikur fer fram á miðvikudag. Fylgst var með gangi mála á mbl.is.

Tölfræði leiksins á kki.is 

21:54 Síðasta sókn Grindavíkur fer í vaskinn. Þorleifur Ólafsson tekur þriggja stiga skot úr þröngri stöðu og Snæfell sigrar, 116:114.  

21:49 Justin Shouse skorar fyrir Snæfell þegar 11,3 sekúndur eru eftir. Staðan er 116:114 og það er nánast þögn í "Fjósinu". Áhorfendur halda niðri í sér andanum af spennu. Grindavík fær tækifæri til þess að koma skoti á körfuna. 

21:45 Staðan er 114:112 fyrir Snæfell. 2 mín. eftir. 

21:41 Jamaal Williams tók síðasta skot leiksins, 1 sekúndu fyrir leikslok, og boltinn fór ekki ofaní. Staðan er jöfn, 106:106, og framlenging tekur við. Ótrúleg spenna í Stykkishólmi. 

21:34 Sigurður Þorvaldsson hefur skorað 9 stig í röð og staðan er 103:104 fyrir Grindavík þegar 1:25 mín. eru eftir. Sigurður hefur skorað 34 stig í leiknum og hann hefur komið heimamönnum inn í leikinn með mikilli skotsýningu.

21:29 Það er allt að gerast. Sigurður Þorvaldsson skorar þriggja stiga körfu og munurinn er 4 stig, 95:99. Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur tekur leikhlé. Sigurður er með 28 stig og Justin Shouse er með 12 stoðsendingar í liði Snæfells. Adam Darboe er stigahæstur í liði Grindavíkur með 30 stig og 12 stoðsendingar.

21:26 Páll Kristinsson er með 5 villur í liði Grindavíkur og kemur ekki meira við sögu. Jamaal Williams miðherji Grindavíkur var að fá 4. villuna. Staðan er 90:97 fyrir Grindavík. 

21:24 Slobadan Subasic hefur látið að sér kveða að undanförnu og er hann með 20 stig. Það munar 9 stigum á liðunum, 88:97, og 5:39 mín eru eftir.

21:19 Grindvíkingar halda áfram sínu striki. Adam Darboe skoraði þriggja stiga körfu rétt áður en skotklukkan rann út, staðan er 77:93 og allt útlit fyrir að oddaleikurinn fari fram á miðvikudag í Grindavík. Darboe hefur ekki klikkað á þriggja stiga skoti í leiknum og öll 6 skot hans hafa farið ofaní. 29 stig hjá þeim danska.

Snæfell - Grindavík 70:86 (3. leikhluta er lokið)

Það hefur nánast allt gengið upp hjá Grindavík í þriðja leikhluta. Adam Darboe hefur gefið 10 stoðsendingar og skorað 23 stig fyrir Grindavík.  Þriggja stiga skot Grindavíkur hafa ratað rétta leið og skotnýting liðsins er 55% fyrir utan þriggja stiga línuna. 

21:09 Þorleifur Ólafsson leikmaður Grindavíkur er æfur eftir að dæmd er villa á hann. Leikmenn Grindavíkur þurfa ðað ganga á milli og halda Þorleifi frá dómurunum. Staðan er 65:75 fyrir Grindavík. 

21:07 Hlynur Birgisson hefur keyrt upp að körfu Grindavíkur við hvert tækifæri eftir að hann lenti í samstuðinu við Jamaal. Það eru 3 mínútur eftir af 3. leikhluta. Staðan er 64:75 fyrir Grindavík. 

21:02 Páll Kristinsson leikmaður Grindavíkur fékk 4. villuna rétt í þessu og fer af velli. Staðan er 57:68 fyrir Grindavík þegar 6 mín. eru eftir af þriðja leikhluta. 

21:00 Hlynur Bæringsson keyrir upp að körfunni hjá Grindavík og Jamaal Williams brýtur harkalega á honum. Báðir dómarar leiksins hlaupa undir körfuna og ganga á milli þeirra Hlyns og Jamaal. Það er farið að hitna í mönnum og staðan er 57:64 fyrir Grindavík. 

20:58 Friðrik Ragnarsson tekur leikhlé og fer yfir málin með Grindavíkurliðinu. Staðan er 55:64 fyrir Grindavík og liðið hefur skorað 2 stig á rúmlega 2 mínútum sem liðnar eru af þriðja leikhluta.  

20:56 Snæfell skorar fyrstu 4 stigin í síðari hálfleik. Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur er ekki sáttur við varnarleikinn og lætur sína menn heyra það. Staðan er 53:64 fyrir Grindavík.   

Snæfell - Grindavík 49:62 (2. leikhluta er lokið)

Árni Ragnarsson skoraði síðustu stig fyrri hálfleiks með þriggja stiga skoti og minnkaði hann muninn fyrir Snæfell í 13 stig. Varnarleikur Grindavíkur er mjög öflugur en liðið hefur að mestu leikið svæðisvörn fram að þessu. Skyttur Snæfells hafa ekki náð að ógna með langskotum og Grindvíkingar geta því leyft sér að vera þéttir fyrir í varnarleiknum undir körfunni. Adam Darboe hefur átt skínandi leik hjá Grindavík en hann er með 15 stig og 8 stoðsendingar.  Þriggja stiga nýting Grindavíkur er 57% í fyrri hálfleik þar sem 7 af alls 13 skotum liðsins fóru rétta leið. Jamaal Williams skoraði 13 stig fyrir Grindavík í fyrri hálfleik og Páll Axel Vilbergsson skoraði 12. 

Sigurður Þorvaldsson er stigahæstur í liði Snæfells með 18 stig og Justin Shouse skoraði 13. Hlynur Bæringsson hefur ekki náð sér á strik í sókninni og er hann með 5 stig og 6 fráköst. 

20:38 Danski leikstjórnandinn Adam Darboe fer á kostum í liði Grindavíkur. Hann finnur glufur á svæðisvörn Snæfells og kemur boltanum á samherja sína. Darboe er með 8 stoðsendingar og er staðan 44:59 fyrir Grindavík þegar 1 mínúta er eftir af fyrri hálfleik.  

20:33 Það gengur illa hjá heimamönnum þessa stundina. Staðan er 40:51 og það eru Grindvíkingar sem ná flestum fráköstum og eru með stjórn á leiknum.  Geof Kotila þjálfari Snæfells tekur leikhlé og fer yfir málin með leikmönnum sínum.

20:29 Grindavík er 10 stigum yfir, 37:47, og virðist vera að ná góðum tökum á leiknum.  

20:26 Ríkharður Hrafnkelsson fær það hlutverk að reyna sig í Iceland Express hringlinu. Hann þarf að snúa sér í 10 hringi í miðjuhringnum áður en hann reynir að skora undir körfunni. Það gengur ekki hjá Ríkharði þrátt fyrir ágætis tilþrif.  

20:24 Igor Beljanski reynir skot á körfu Snæfells og tveir leikmenn Snæfells vörðu skotið á sama tíma. Staðan er 31:35 fyrir Grindavík og það er aðeins farið að hitna í kolunum í baráttunni undir körfunni.  

20:21 Grindavík er yfir, 29:35, þegar 8:30 mín eru eftir af 2. leikhluta. 

Snæfell - Grindavík 29:28 (1. leikhluta er lokið)

Adam Darboe er stigahæstur í liði Grindavíkur með 9 stig.  Sigurður Þorvaldsson er með 9 stig fyrir Snæfell og Justin Shouse 10.

20:11 Staðan er 22:23 fyrir Grindavík sem leikur svæðisvörnina af krafti. Páll Axel Vilbergsson hefur skorað 2 þriggja stiga körfur með stuttu millibili fyrir Grindavík. 

20:08 Grindavík hefur náð betri tökum á sóknarleiknum og er staðan 16:17 fyrir Grindavík. Leikurinn er mjög hraður og þriggja stiga skot Grindvíkinga rata rétta leið.

20:06 Staðan er 11:9 fyrir Snæfell þegar 5:40 eru eftir af fyrsta leikhluta. 

20:04 Ingvaldur Magni Hafsteinsson leikmaður Snæfells er með 2 villur og fer af leikvelli þegar 7:47 mín. eru eftir af fyrsta leikhluta.  

20:02 Sigurður Þorvaldsson er í mklum ham og hefur hann skorað 7 stig af alls 9 stigum Snæfells á fyrstu 2 mínútunum. Staðan er 9:2 fyrir Snæfell.

20:01 Leikurinn er byrjaður. Justin Shouse skorar fyrstu stig leiksins fyrir Snæfell. 

19:55 Leikmenn Grindavíkur eru kynntir til leiks. Stuðningsmenn Snæfells láta bandaríska miðherjann Jamaal Williams heyra það en hann er ekki vinsælasti leikmaðurinn í „Fjósinu“.

Íþróttahúsið í Stykkishólmi er að fyllast og eru fjölmargir stuðningsmenn Grindavíkur mættir.  

Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson eru dómarar leiksins. Pétur Sigurðsson er eftirlitsmaður.  

Snæfell vann fyrsta leikinn sem fram fór í Grindavík, 97:94, eftir framlengingu. Snæfell hafði betur í öðrum leiknum sem fram fór í Stykkishólmi, 77:71. Grindavík náði að vinna þriðja leikinn sem fór fram s.l. laugardag í Grindavík, 90:71. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert