Jón Arnór getur orðið ítalskur meistari

Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. mbl.is/Carlini Mario

Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, fær tækifæri til þess að landa meistaratitlinum í ítölsku úrvalsdeildinni eftir öruggan sigur 77:70-sigur Lottomatica Roma í kvöld  gegn Air Avellino í undanúrslitum. Roma vann þrjá leiki í röð og leikur til úrslita gegn Siena sem hafði nokkra yfirburði í deildarkeppninni í vetur.

Roma og Air Avellino enduðu í 2. og 3. sæti deildarinnar. Jón Arnór hafði hægt um sig í leiknum í kvöld en hann skoraði eina þriggja stiga körfu á þeim 15 mínútum sem hann lék.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur körfuknattleiksmaður leikur til úrslita um meistaratitilinn á Ítalíu. Ítalska deildin er af mörgum talin næst sterkasta deildarkeppni heims á eftir NBA-deildinni í Bandaríkjunum.  

Tölfræði leiksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert