KR komst í 1:0 gegn Grindavík í Frostaskjóli

Úr leiknum í DHL-höllinni
Úr leiknum í DHL-höllinni mbl.is/Kristinn

Úrslitarimma KR og Grindavíkur í Iceland Express deild karla í körfuknattleik hófst í DHL-höll KR-inga í dag með sigri heimamanna. Það lið sem fyrr sigrar í þremur leikjum verður meistari. Næsti leikur liðanna fer fram í Grindavík á mánudaginn. Hægt var að fylgjast með beinni útsendingu hér á mbl.is í samvinnu við KR TV, auk hefðbundinnar textalýsingar. Smellið á <i>meira</i>.

Mikil spenna er vegna leikja liðanna, sem þykja hafa skarað framúr í vetur, og búast menn við  skemmtilegri rimmu þeirra á næstu dögum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is með beinni textalýsingu auk þess sem hægt var að fylgjast með KR sjónvarpinu sem sendi beint út frá leiknum.

Stigahæstir hjá KR:

Helgi Már Magnússon 22 stig

Fannar Ólafsson 22 stig

Stigahæstir hjá Grindavík:

Nick Bradford 38 stig

Helgi Jónas Guðfinnsson 13 stig.

40. LEIK LOKIÐ. KR sigraði 88:84 eftir nokkurn hasar á lokamínútunni.

40. Staðan er 86:78 fyrir KR sem er með boltann og 40 sekúndur eftir.

39. Staðan er 84:76 fyrir KR. Þriggja stiga karfa frá Brenton. KR-ingar með boltann og 90 sekúndur eftir.

37. Staðan er 83:71 fyrir KR. Helgi Jónas Guðfinnsson var að setja niður þriðja þriggja stiga skotið á stuttum tíma. Páll Kristinsson er kominn í bað með fimm villur.

36. Staðan er 81:68 fyrir KR. Besti maður KR-inga í leiknum Helgi Már Magnússon var að fá sína fimmtu villu og kemur ekki meira við sögu.

35. Staðan er 79:66 fyrir KR og hefur Grindvíkingum því tekist að naga muninn niður í þrettán stig. Helgi Jónas er að sýna gamla takta og var að setja niður körfu langt fyrir utan þriggja stiga línuna.

34. Staðan er 77:61 fyrir KR. Átta stig frá Grindvíkingum í röð en betur má ef duga skal. Helgi Guðfinnsson var að skora glæsilega þriggja stiga körfu.

32. Staðan er 77:53 fyrir KR. Jakob Sigurðarson var að skora þriggja stiga körfu fyrir KR.

30. Staðan er 74:51 fyrir KR að loknum þriðja leikhluta. Spennan er því takmörkuð fyrir síðasta leikhluta. Bradford hefur skorað 28 stig af 51 hjá Grindavík sem er með ólíkindum.

28. Staðan er 68:48 fyrir KR og ljóst hvert stefnir. Helgi og Fannar halda áfram að hitta vel úr sínum færum. Helgi er með 16 stig og Fannar 14 stig.

26. Staðan er 61:44 fyrir KR. Bradford er kominn með 23 stig fyrir Grindavík en þar verða fleiri en hann að taka af skarið.

24. Staðan er 59:41 fyrir KR. Hittni leikmanna er ekki góð í augnablikinu.

22. Staðan er 55:36 fyrir KR. KR-ingar hafa skorað fyrstu fimm stigin í síðari hálfleik og eru komnir í þægilega stöðu.

20. Staðan er 50:36 fyrir KR í hálfleik. Pálmi Freyr Sigurgeirsson slaufaði fyrri hálfleik með glæsilegri þriggja stiga körfu fyrir KR og var vel fyrir utan þriggja stiga línuna.  Hjá KR er Jason Dourisseau stigahæstur með 14 stig en Nick Bradford hjá Grindavík hefur skorað mest allra eða 18 stig. Baráttujaxlarnir Fannar Ólafsson KR og Páll Kristinsson eru báðir komnir með þrjár villur.

18. Staðan er 43:34 fyrir KR. Grindvíkingar minnkuðu muninn í fimm stig en Jason var að troða með ógurlegum tilþrifum og stemningin er aftur KR megin.  Friðrik þjálfari Grindvíkinga tekur leikhlé.

16. Staðan er 36:30 fyrir KR. Grindvíkingar eru búnir að finna taktinn og Benedikt þjálfari KR tekur leikhlé.

15. Staðan er 36:26 fyrir KR. Nick Bradford er að komast í gang hjá Grindavík.

12. Staðan er 34:23 fyrir KR. Jason Dourisseau hefur leikið vel fyrir KR og er duglegur að taka af skarið. 

10. Staðan er 30:18 fyrir KR að loknum fyrsta leikhluta. KR-ingar eru mun beittari og varnarleikur liðsins gerir það að verkum að skyttur Grindvíkinga fá lítið af opnum skotfærum.

9. Staðan er 29:17 fyrir KR en liðið er að spila fantagóða vörn í augnablikinu. Páll Axel var að koma inn á hjá Grindavík en hann byrjaði á bekknum.

6. Staðan er 21:14 fyrir KR og leikurinn verið frábær skemmtun sem af er. Brenton Birmingham er kunnur fyrir hæfileika sína sem varnarmaður og hann hefur fengið það hlutverk að valda Jón Arnór Stefánsson. Verður forvitnilegt að fylgjast með því einvígi en Jón er búinn að skora tvær þriggja stiga körfur á stuttum tíma. 

4. Staðan er 13:8 fyrir KR. Helgi og Fannar Ólafsson sjá um stigaskorun hjá KR. Helgi með 7 stig og Fannar 6. Arnar Freyr Jónsson og Nick Bradford eru báðir búnir að skora þriggja stiga körfur fyrir Grindvíkinga.

2. Staðan er 7:2 fyrir KR. Helgi Már Magnússon byrjar með látum og hefur skorað fimm af fyrstu stigum KR-inga. 

0. Heiðursgestir á leiknum eru leikmenn KR sem urðu Íslands- og bikarmeistarar í körfuknattleik karla árið 1979. Voru ellefu þeirra kallaðir út á gólfið og hylltir af stuðningsmönnm KR. Kunnastir í þessum hópi eru væntanlega Einar Bollason, Kolbeinn Pálsson og Jón Sigurðsson.

0. Bæði liðin tefla fram öllum sínum sterkustu leikmönnum. Landsliðsmaðurinn Páll Axel Vilbergsson hjá Grindavík hefur átt við meiðsli að stríða undanfarið og hefur ekki beitt sér ýkja mikið í úrslitakeppninni. Forvitnilegt verður að sjá hvernig honum reiðar af.

0. Mikill fjöldi áhorfenda er þegar kominn í DHL-höllina og ljóst að áhorfendafjöldi á leiknum verður vel á annað þúsund.  Rapparinn Erpur Eyvindarson er að skemmta áhorfendum þessa stundina á meðan leikmenn liðanna gera sig klára fyrir átökin. 

Jón Arnór Stefánsson og samherjar í KR taka á móti …
Jón Arnór Stefánsson og samherjar í KR taka á móti Grindavík. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert