Hollendingar lagðir að velli í Smáranum

Páll Axel Vilbergsson í leiknum gegn Hollendingum.
Páll Axel Vilbergsson í leiknum gegn Hollendingum. mbl.is/Stefán Þór Borgþórsson

Leikur Íslands og Hollands í B-deild Evrópukeppninnar í körfuknattleik karla hófst í Smáranum í Kópavogi klukkan 16.  Ísland sigraði 87:75 og komst þar með upp að hlið Austurríkismanna í 3. sæti riðilsins en Hollendingar eru í 2. sæti. Íslendingar lögðu grunninn að sigrinum með frábærri frammistöðu í fyrri hálfleik og náðu þá 28 stiga forskoti. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stigahæstir:

Jón Arnór Stefánsson 23 stig

Páll Axel Vilbergsson 18 stig

87:75 ÚRSLIT Ísland landaði sanngjörnum sigri á hávöxnu liði Hollands 87:75 eftir að hafa verið yfir í hálfleik 59:31.

85:68 Ein og hálf mínúta eftir og staðan er vænleg. Fannar Ólafsson hefur stigið fram á síðustu mínútum og verið drjúgur.

79:66 Tvær og hálf mínúta eftir og gestirnir taka leikhlé. Sigurinn er í seilingarfjarlægð hjá Íslandi. Páll Axel er búinn að fá sína 5. villu og kemur ekki meira við sögu. Hann skoraði 18 stig og komu þau öll utan þriggja stiga línunnar.

78:66 4 mínútur eftir af leiknum. Páll Axel er búinn að bæta við sinni 6. þriggja stiga körfu. Hollendingum hefur ekki tekist að minnka muninn niður fyrir 10 stigin.

73:63 6 mínútur eru eftir af leiknum.  Páll Axel er kominn með 4 villur, einn Íslendinga.

71:55 Síðasti leikhlutinn fer vel af stað fyrir íslenska liðið sem hefur skorað fyrstu 5 stigin. Rúmar 7 mínútur eru eftir af leiknum. 

3. leikhluti:

66:55. Að loknum þremur leikhlutum er Ísland yfir 66:55. Frammistaðan í 3. leikhluta var alls ekkert til þess að hrópa húrra fyrir en erfitt getur verið að halda einbeitingu með 28 stiga forskot. Það er hins vegar fokið út í veður og vind en Hollendingunum hefur þó ekki tekist að koma muninum undir 10 stigin sem getur reynst sálfræðilegur þröskuldur.

64:51 Ísland hefur aðeins skorað 5 stig á fyrstu 8 mínútum síðari hálfleik og síðasti leikhlutinn gæti orðið erfiður.

62:47 Hlutirnir eru fljótir að gerast í körfuknattleik. Holland hefur minnkað muninn niður í 15 stig á fyrstu 5 mínútum síðari hálfleiks.

62:41 Eftir 3,5 mínútna leik í síðari hálfleik tókst Loga að brjóta ísinn fyrir Ísland og forskotið er ennþá gott en Hollendingar eru nú líklegri til þess að saxa á forskotið en í fyrri hálfleik.

59:37 Hollendingar koma mun einbeittari til leiks í upphafi síðari hálfleiks og hafa skorað fyrstu sex stigin en rúmar 2 mínútur eru liðnar.

2. leikhluti: 

59:31 Ótrúlegir yfirburðir Íslands í fyrri hálfleik gegn frambærilegu liði Hollands sem er í 2. sæti riðilsins og 28 stiga munur í hálfleik. Jón Arnór hefur farið hamförum og er með 21 stig. Hann hefur verið þvílíkur yfirburðarmaður og dómaratríóið hefur látið það óátalið þó Hollendingarnir brjóti grimmt á honum. Páll Axel er með 15 stig og öll úr þriggja stiga skotum. Pavel er með 7 stig, Logi 5, Fannar 4, Magnús 3, Hörður 2 og Sigurður 2.

50:27 Frábær frammistaða Íslendinga heldur áfram. Páll Axel er kominn með 5 þriggja stiga körfur í 7 tilraunum.

43:23 Hollendingarnir hafa lent í slátrun í fyrri hálfleik í Smáranum. Pavel var að koma muninum upp í 20 stig með því að keyra upp að körfunni af harðfylgi. Tæpar fjórar mínútur eru eftir af fyrri hálfleik.

35:17 Íslenska liðið heldur uppteknum hætti í upphafi 2. leikhluta. Eftir 13 mínútur er staðan orðin 35:17. Jón Arnór er kominn í 19 stig og Páll Axel er með 9 stig, öll úr þriggja stiga skotum. Logi Gunnarsson hefur einnig komið nokkuð ferskur inn af bekknum. 

1. leikhluti:

24:12 Fyrsti leikhlutinn þróaðist frábærlega fyrir Ísland og að honum loknum er staðan 24:12. Jón Arnór bauð upp á sýningu og skoraði 15 stig í leikhlutanum.  Í vörninni hefur baráttan verið til fyrirmyndar gegn hávöxnum Hollendingum. Íslendingarnir hafa leyft gestunum að skjóta fyrir utan en þeir hollensku gætu ekki hitt sjóinn þó þeir stæðu á bryggjunni.

18:9 Eftir frábæran einleikskafla Jóns Arnórs er Ísland skyndilega komið með 9 stiga forskot. Jón er kominn með 12 stig í leikhlutanum og gestirnir ráða ekkert við hann.

11:9 Ísland er yfir eftir 5 mínútna leik þrátt fyrir að sóknarleikurinn hafi verið nokkuð vandræðalegur. Páll Axel er hins vegar heitur og er búinn að setja niður tvö þriggja stigaskot og Jón Arnór hefur sett niður eina.

5:2 Páll Axel skoraði fyrstu stig Íslands með þriggja stiga skoti og Jón Arnór bætti við tveimur úr hraðaupphlaupi.

0:2 Hollendingar skora fyrstu stigin. Pavel, Jón Arnór, Helgi Már, Páll Axel og Sigurður Þorsteins byrja inn á hjá Íslandi.

Hollendingar unnu leik liðanna í Hollandi fyrir tæpu ári síðan 84:68 þar sem heimamenn sigldu ekki fram úr fyrr en á lokakaflanum. Hollendingar tefla fram tveimur leikmönnum sem eru á mála hjá liðum í NBA deildinni. Um er að ræða þá Francisco Elson hjá Milwaukee Bucks og Henk Norel hjá Minnesota Timberwolves.

Lið Íslands:

Magnús Gunnarsson

Fannar Ólafsson

Pavel Ermolinskij

Þorleifur Ólafsson

Sveinbjörn Claessen

Jón Arnór Stefánsson

Páll Axel Vilbergsson

Ómar Sævarsson

Helgi Már Magnússon

Hörður Axel Vilhjálmsson

Logi Gunnarsson

Sigurður Þorsteinsson

Jón Arnór Stefánsson er í aðalhlutverki í íslenska liðinu.
Jón Arnór Stefánsson er í aðalhlutverki í íslenska liðinu. mbl.is/hag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert