Lakers niðurlægt í Oklahoma

Anthony Parker hjá Cleveland með boltann en Manu Ginobili hjá …
Anthony Parker hjá Cleveland með boltann en Manu Ginobili hjá San Antonio sækir að honum í leik liðanna í nótt. Reuters

Oklahoma City Thunder stöðvaði í nótt sjö leikja sigurgöngu Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik með sannfærandi sigri, 91:75. San Antonio Spurs lagði Cleveland Cavaliers að velli.

Lakers átti aldrei möguleika í Oklahoma þar sem heimamenn voru 19 stigum yfir í hálfleik og staðan var 80:47 eftir þriðja leikhluta en þá hafði Lakers ekki náð að skora nema 13 stig í seinni hálfleiknum.

Scott Brooks, þjálfari Oklahoma, var steini lostinn yfir gífurlegum yfirburðum sinna manna, svo mjög að hann kom vart upp orði á blaðamannafundinum eftir leikinn. Hann sagði að lokum: „Við spiluðum vel í kvöld!“

Kobe Bryant skoraði bara 11 stig í leiknum, hitti aldrei körfuna í þriðja leikhluta og var ekki einu sinni skipt inná í fjórða leikhlutanum þar sem Lakers tók loksins við sér og skoraði 28 stig gegn 11. Kevin Durant skoraði 26 stig fyrir Oklahoma en Lamar Odom var skástur hjá Lakers með 15 stig og tók 7 fráköst.

Manu Ginobili skoraði 30 stig fyrir San Antonio sem sigraði Cleveland, 102:97. LeBron James skoraði 27 stig fyrir Cleveland og átti 10 stoðsendingar.

Paul Pierce skoraði 22 stig  fyrir Boston og Rajon Rondo átti 18 stoðsendingar þegar liðið vann Sacramento, 94:86.

Danny Granger skoraði 44 stig fyrir Indiana Pacers sem vann Utah Jazz, 122:106.

Dwight Howard skoraði 24 stig og tók 19 fráköst fyrir Orlando Magic sem vann Minnesota Timberwolves, 106:97.

Carmelo Anthony skoraði 25 stig fyrir Denver Nuggets sem vann Toronto Raptors á útivelli í Kanada, 97:96. Hann gerði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út.

Amare Stoudamire skoraði 18 stig fyrir Phoenix Suns sem burstaði New York Knicks, 132:96.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - Washington 107:96
Indiana - Utah 122:106
Orlando - Minnesota 106:97
Philadelphia - Atlanta 105:98
Toronto - Denver 96:97
Boston - Sacramento 94:86
New Jersey - Detroit 118:110
Oklahoma City - LA Lakers 91:75
Milwaukee - Miami 74:87
San Antonio - Cleveland 102:97
Phoenix - New York 132:96

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert