Við missum okkur ekki strax

Chynna Brown er í lykilhlutverki í liði Snæfells.
Chynna Brown er í lykilhlutverki í liði Snæfells. mbl.is/Árni Sæberg

Snæfell tryggði sér í gærkvöld deildarmeistaratitilinn í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins. Það hefur raunar verið í pípunum heillengi en var ekki í höfn fyrr en í gær eftir sigur á Hamri í Hveragerði, 91:79.

Þrátt fyrir stóran áfanga var stóísk ró yfir reynsluboltanum í liðinu, Hildi Sigurðardóttur, þegar Morgunblaðið heyrði í henni hljóðið. Hún var þá stödd í liðsrútunni á leiðinni heim í Hólminn og það vakti athygli blaðamanns að heyra engin fagnaðarlæti, hróp eða köll, í bakgrunni sem vill nú oft vera fylgifiskur þess að koma titli í hús. Hvað þá þegar sá hinn sami er sá fyrsti í sögunni.

„Já, þetta er frekar rólegt lið en stemningin er engu að síður góð svo maður veit aldrei, við eigum nóg eftir ennþá. En það er stutt í næsta stórleik svo við getum ekki alveg misst okkur strax,“ sagði Hildur.

Enn eru fjórar umferðir eftir af deildinni og Haukar hafa raunar enn möguleika að ná Snæfelli að stigum, en þar sem Snæfell hefur betur í innbyrðis viðureignum þeirra geta þær hafnfirsku ekki hrifsað til sín efsta sætið. Þrátt fyrir að mikið hafi verið undir gegn Hamri í gær var spennustigið í liðinu þó ekki sérstaklega hátt fyrir leikinn.

„Nei, það var bara fínt. Við vorum komnar mjög tímanlega í Hveragerði og rúntuðum svolítið um bæinn þannig að við vorum allar sallarólegar. Við vitum alveg hvað við þurfum að gera til þess að vinna þessa leiki og reynum bara að gera það, sama hvað er undir. Við erum ákveðnar í að klára mótið af krafti og spila okkar leik áfram. Þannig stefnum við á að bæta okkur enn frekar ef eitthvað er og við erum ekkert að stressa okkur á hlutunum,“ sagði Hildur.

Nánar er rætt við Hildi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert