Benedikt: Framlagið af bekknum

Benedikt Guðmundsson rökræðir við Sverri Þór Sverrisson, þjálfara Grindavíkur, á …
Benedikt Guðmundsson rökræðir við Sverri Þór Sverrisson, þjálfara Grindavíkur, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta var bara svakalegur leikur frá fyrstu sekúndu þannig ég er svo ánægður að hafa unnið hann,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs Þ., eftir sigurinn á Grindavík í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Þór jafnaði þar með metin í einvígi liðanna, 1:1.

„Við vorum með leikinn undir okkar stjórn lengi vel en svo lendum við í miklum villuvandræðum og lendum undir en ég er virkilega ánægður með að við skulum hafa svarað því og náð að klára þetta,“ sagði Benedikt og bætti við að leikurinn hafi verið öðruvísi en fyrsti leikurinn í einvíginu.

„Allir leikir í Þorlákshöfn eru öðruvísi en annars staðar, það er alltaf sérstök stemning hérna í gufuklefanum. Þetta var sama baráttan og í leik eitt, en í kvöld vorum við sterkari andlega og það var það sem ég vildi sjá. Við gáfum eftir á nákvæmlega sama tíma og í fyrsta leiknum en núna svöruðum við fyrir okkur og það er það sem ég er búinn að vera að kalla eftir.

Þetta er úrslitakeppnin og núna erum við á pari, þannig að þetta verður sama baráttan áfram. Við þurfum að taka einn leik í Grindavík og þeir eru auðvitað andskotanum erfiðari þar en við þurfum að taka einn og verja heimavöllinn og þá erum við að fara áfram,“ sagði Benedikt en hann var ánægður með framlagið af bekknum í kvöld.

„Já, munurinn á okkur núna og í síðasta leik var framlagið af bekknum. Bekkurinn var stressaður í síðasta leik og liðið var í mínus á þeim tíma sem þeir voru inná en núna fengum við frábæra innkomu frá frændunum Emil Einarssyni og Halldóri Hermannssyni. Emil átti afburðaleik og hann var ein stærsta ástæðan fyrir því að við unnum þennan leik. Ef við fáum áfram svona framlag frá bekknum þá getum við slegið út Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert