Sigurður: Við vorum skelfilegir

Sigurður Gunnar Þorsteinsson ræðir málin við Sverri Þór Sverrisson þjálfara …
Sigurður Gunnar Þorsteinsson ræðir málin við Sverri Þór Sverrisson þjálfara Grindavíkur í Þorlákshöfn í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherji Grindavíkur, var ekki að skafa af hlutunum þegar mbl.is ræddi við hann eftir tapleikinn gegn Þór Þorlákshöfn í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld. Staðan er nú 1:1 í einvígi liðanna sem mætast næst í Grindavík á fimmtudagskvöld.

<br/><br/>

„Við vorum skelfilegir. Persónulega var ég svo langt með hausinn uppi í afturendanum að ég þarf að eyða næstu dögum í að leita að honum,“ sagði Sigurður sem fékk sína fimmtu villu snemma í 3. leikhluta. En hvað var í gangi?

<br/><br/>

„Ég spilaði illa og á örugglega ekki rétt á því að vera að rífa kjaft en mér fannst dómgæslan léleg. Mér fannst sumar villurnar mínar ekki réttar þannig að þó að ég hafi sjálfur spilað mjög illa þá fannst mér þetta vera léleg dómgæsla á báða bóga - en ég er ekki dómari. Þeir eiga lélega leiki eins og við, en ég hef aldrei séð dómara svona lélega,“ sagði Sigurður en margir vafasamir dómar féllu í leiknum og í leikslok voru Grindvíkingar brjálaðir út í tríóið.

<br/><br/>

„Við eigum miklu meira inni en þetta. Um leið og við förum að spila saman og gera hlutina eins og við eigum að gera þá eigum við að vinna Þór. Við erum ekki búnir að spila vel í þessum tveimur leikjum þannig að við þurfum bara að fara á æfingu og laga þessa hluti sem eru að,“ sagði Sigurður en þrátt fyrir kaflaskiptan leik var útlit fyrir að Grindvíkingar myndu landa sigri þegar þeir komu til baka eftir að hafa verið sautján stigum undir í upphafi síðari hálfleiks.

<br/><br/>

„Ég hélt að við værum komnir með þetta en líklega vantaði bara leikmenn inn á völlinn undir lokin,“ sagði Sigurður léttur. „Nei, við vorum bara lélegir og klikkuðum á auðveldum, galopnum skotum. Ef við hittum ekki úr þeim þá getum við ekki unnið leiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert