Endurtekið efni og Njarðvík komin í 2:0

Njarðvíkingurinn Elvar Friðriksson sækir að Haukum í kvöld.
Njarðvíkingurinn Elvar Friðriksson sækir að Haukum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Njarðvíkingar geta tryggt sér sæti í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik á föstudagskvöld eftir að þeir náðu 2:0-forskoti í einvígi sínu við Hauka með sigri í Schenker-höllinni í kvöld. Lokatölur urðu nákvæmlega þær sömu og í fyrsta leiknum, 88:84.

Leikurinn í kvöld var hnífjafn og spennandi líkt og á föstudaginn. Haukar byrjuðu þó talsvert betur en Njarðvík var tveimur stigum yfir í hálfleik, 48:46. Gestirnir lögðu svo grunninn að sigrinum með góðum þriðja leikhluta sem þeir unnu 25:16. 

Kári Jónsson minnkaði muninn í þrjú stig þegar enn voru 40 sekúndur til leiksloka, 85:82, en Logi Gunnarsson gerði útslagið með fallegu þriggja stiga skoti þegar tæpar 19 sekúndur voru eftir.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

40. Leik lokið. Njarðvíkingar vinna með nákvæmlega sömu tölum og í fyrsta leiknum, 88:84. Þeir eru með pálmann í höndunum, 2:0 yfir í einvíginu.

40. Jæja, þá er þetta svo að segja búið. Emil fékk dæmd á sig skref þegar 10,6 sekúndur eru eftir. Haukamenn í stúkunni farnir að koma sér út. Njarðvík tekur leikhlé.

40. Vá! Logi Gunnarsson með þrist úr horninu þegar 18,9 sekúndur eru eftir. Kemur Njarðvík í 88:82. Þeir grænklæddu hoppa af fögnuði. Haukar taka leikhlé.

40. 40 sek eftir þegar Kári minnkar muninn í 85:82 eftir að Watson tók frákast.

39. Smith braut á Emil Barja í þriggja stiga skoti svo hann fékk þrjú vítaskot. Hann nýtti þau öll og minnkaði muninn í fimm stig, 85:80. Njarðvík tekur leikhlé. Mínúta og 9 sekúndur eftir.

39. Aftur skorar Magic glæsilega, nú úr tveggja stiga skoti, og eykur muninn í 85:77. Watson fékk dæmd á sig skref.

38. Þorsteinn Finnbogason með þrist og Kári Jónsson fylgir því eftir með tvisti eftir að hafa stolið boltanum. Vonir Hauka snaraukast á augabragði. Staðan 83:77 og tvær mínútur eftir.

37. Ólafur Helgi með mikilvægt sóknarfrákast en Njarðvíkingar misstu boltann svo á eigin vallarhelming. Magic Baginski hljóp og sótti hann, og hitti glæsilega úr þriggja stiga skoti akkúrat þegar leikflautan gall. Staðan 83:72.

34. Ólafur Helgi eykur muninn í 10 stig með fallegum þristi, 78:68, og er eitt sólskinsbros eftir það.

32. Haukar strax búnir að minnka muninn í fimm stig, 73:68, með körfum frá Watson og tveimur vítaskotum Kára Jónssonar.

30. Leikhluta 3 lokið. Tracy Smith kveikti í áhorfendum með almennilegri troðslu og kom Njarðvík í 71:62, og Elvar bætti við tvisti eftir skelfilega skottilraun Davíðs Páls. Staðan 73:62 fyrir Njarðvík þegar 10 mínútur eru eftir. Ná þeir 2:0-forskoti í einvíginu?

29. Haukur Óskarsson gerði vel í að komast inn í sendingu, brunaði fram og skoraði auk þess að fá vítakast sem hann skoraði einnig úr. Mikilvægt fyrir Hauka sem minnka muninn í sex stig, 68:62. Emil var að fara af velli eftir að hafa fengið sína fjórðu villu.

28. Davíð Páll Hermannsson var að fá dæmda á sig villu og svo tæknivillu en Tracy Smith nýtti aðeins eitt af fjórum vítum sínum. Elvar skoraði svo tvist og kom Njarðvík í 68:57.

27. Njarðvík komst 10 stigum yfir en Watson var að minnka muninn í 65:57 með tvisti. Hann klikkaði reyndar á vítinu sem hann fékk í kaupbæti.

26. Ágúst strax með annan þrist, og Logi bætir við þeim þriðja! Þetta vantaði alveg í fyrri hálfleik. Staðan 63:55 Njarðvík í vil.

25. Ágúst Orrason kveikti vel í stuðningsmönnum Njarðvíkur með þristi og kom gestunum yfir, 57:55. Haukar taka leikhlé. Svavar Páll Pálsson er kominn með sína fjórðu villu en heldur áfram inná fyrir heimamenn.

24. Emil er ferskur eftir alla pásuna í 2. leikhluta og kemur Haukum í 55:50. Hann er kominn með 15 stig.

21. Sigurður Þór Einarsson byrjaði seinni hálfleikinn á að jafna metin, og Emil Barja setti svo þrist þannig að Haukar eru komnir yfir, 51:48.

20. Hálfleikur. Njarðvíkingar hittu aðeins úr einu þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik, sem er sjálfsagt einsdæmi hjá þeim í vetur. Þeir hafa reyndar bara átt 6 tilraunir fyrir utan þriggja stiga línuna. Á meðan hafa Haukar hitt úr 6 af 16 þristum sínum.

20. Hálfleikur. Logi Gunnarsson skilaði Njarðvík tveggja stiga forskoti inn í hálfleikinn, 48:46, með aðeins annarri körfu sinni í kvöld. Þeir Elvar hafa hitt illa úr skotum sínum í kvöld en gestirnir eru engu að síður yfir. Tracy Smith er þeirra stigahæstur með 16 stig, og hefur tekið 11 fráköst. Terrence Watson og Emil Barja hafa gert 10 stig hvor fyrir Hauka en Emil fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta og hefur ekkert leikið eftir það. Elvar og Ólafur Helgi eru einnig komnir með þrjár villur hjá Njarðvík.

17. Ólafur Helgi með tvist og vítaskot að auki fyrir Njarðvík, og minnkar muninn í 39:38. Tracy Smith varði svo skot Hauks með tilþrifum uppi við körfu Njarðvíkur.

16. Watson var að verja skot Elvars með tilþrifum og hinum megin á vellinum skoraði Steinar Aronsson svo þrist, og kom Haukum í 37:33.

13. Kári Jónsson var að jafna metin með þristi fyrir Hauka, 30:30. Rétt áður fékk Elvar Már sína þriðju villu fyrir brot á Watson. Njarðvíkingar voru hundóánægðir með dóminn og töldu um ruðning að dæma en mér sýndist þetta vera rétt mat.

10. Leikhluta 1 lokið. Sviptingar í þessum leikhluta. Haukar virtust ætla að endurtaka leikinn frá því í Njarðvík á föstudaginn með því að ná góðu forskoti í byrjun. Þeir komust í 22:11 en Njarðvík komst yfir, 26:25, með síðustu körfu leikhlutans sem var lagleg karfa í boði Óla Ragnars Alexanderssonar. Haukar skoruðu aðeins þrjú stig á síðustu fjórum mínútum leikhlutans.

8. Emil var að fá sína aðra villu fyrir klaufalegt brot á Elvari við upphaf sóknar. Hann er tekinn af velli og fær einhverjar skammir frá Ívari þjálfara. Svavar Páll Pálsson er einnig kominn með tvær villur, líkt og Njarðvíkingarnir Ólafur Helgi Jónsson og Elvar Már Friðriksson.

8. Tracy Smith var að setja tvist og víti að auki og minnka muninn í 24:20.

7. Munurinn varð mestur 11 stig, 22:11, en Elvar og Smith voru að minnka hann í 22:15 með því að nýta vítaskot sín vel.

5. „Af hverju byrjum við þetta ekki eins og menn hérna?!“ spyr Ólafur Helgi samherja sína í Njarðvík. Gestirnir taka leikhlé til að ráða ráðum sínum eftir slæma byrjun. Staðan 17:8.

5. Emil að setja tvo tandurhreina þrista í röð fyrir Hauka og auka muninn í 17:8. Hann er kominn með 10 stig.

3. Þristur frá Ólafi Helga Jónssyni og Elvar hitti svo úr fyrra víti sínu í næstu sókn. Njarðvík að minnka muninn í 11:8.

2. Sigurður Þór Einarsson var að setja þrist fyrir Hauka og Elvar braut á honum í skotinu. Sigurður klikkaði hins vegar á vítinu. Staðan 9:4 Haukum í vil.

1. Haukur klikkaði á tveimur skotum í fyrstu sókn Hauka en Emil vann frákastið og skoraði. Logi svaraði strax fyrir Njarðvík. Staðan 2:2.

1. Leikur hafinn! Haukar vinna uppkastið. Nú notum við leikmínútur til að vita hvað tímanum líður hérna í lýsingunni.

19.12 - Haukamenn fá spaðafimmur frá nokkrum kornungum félagsmönnum á leið sinni inn á völlinn. Þessi smáatriði telja stundum.

19.11 - Þá er verið að kynna menn til leiks. Stuðningsmenn Njarðvíkur standa og klappa fyrir sínum mönnum.

18.59 - Njarðvíkingar skottast nú inn í klefa til að gera sig endanlega klára fyrir átökin. Haukarnir fylgja eflaust á eftir þeim von bráðar en taka nokkur vítaskot fyrst.

18.55 - Á svona dögum er maður sérstaklega ánægður með að körfubolti sé alla jafna leikinn innanhúss. Þónokkrir áhorfendur hafa þegar komið sér fyrir í sætum sínum en einhverjir standa nú upp þegar þulurinn hérna tilkynnir að pítsurnar séu komnar.

18.30 - Haukar náðu að dreifa mínútunum talsvert betur á milli sín á föstudaginn og spurning hvort það skili sér í ferskari fótum í kvöld. Tracy og Elvar spiluðu allar 40 mínúturnar fyrir Njarðvík og Logi tæplega 38. Sigurður Þór Einarsson lék mest Hauka eða 34 mínútur og 24 sekúndur, Haukur 33:46 og Watson 32:39 mínútur.

18.15 - Haukar hafa ekki komist í undanúrslit síðan árið 2000 en þá töpuðu þeir 3:2 fyrir Grindavíkingum í æsispennandi undanúrslitarimmu.

18.15 - Njarðvík hefur fallið úr leik í 8-liða úrslitum þrjú síðustu ár en komst í undanúrslitin 2010 þar sem liðið tapaði 3:1 fyrir Keflavík.

18.15 - Það má kannski ítreka að samkvæmt nýjum reglum er ekki nóg að vinna tvo leiki í 8-liða úrslitunum í ár, heldur þarf að vinna þrjá. Njarðvíkingar geta því ekki komist áfram í undanúrslit með sigri í kvöld.

18.15 - Sigurður Þór Einarsson nýtti skotin sín vel í Njarðvík, hitti úr 3 af 4 þriggja stiga skotum og var með 14 stig. Terrence Watson og Haukur Óskarsson voru þó stigahæstir Hauka með 21 stig hvor, og Watson tók 18 fráköst. Haukar hafa hins vegar oft fengið meira út úr Emil Barja og Kára Jónssyni í vetur.

18.15 - Bandaríkjamaðurinn Tracy Smith, sem kom til Njarðvíkur um áramótin, átti sinn besta leik í vetur gegn Haukum á föstudaginn. Hann náði í fyrsta sinn 30 stigum, setti raunar 33 stig, og tók einnig 18 fráköst. Haukar þurfa að hafa betri gætur á honum í kvöld en þá gæti auðvitað losnað enn frekar um Elvar Má og Loga Gunnarsson sem skoruðu 16 stig hvor. Ólafur Helgi Jónsson skilaði einnig góðu framlagi, skoraði 13 stig, tók 6 fráköst og átti 5 stoðsendingar.

18.15 - Leikurinn í Njarðvík á föstudaginn var æsispennandi og við gerum að sjálfsögðu kröfu um að það sama verði uppi á teningnum í kvöld. Elvar Már Friðriksson sýndi stáltaugar þegar hann setti niður bæði vítaskot sín, 8 sekúndum fyrir leikslok, og jók muninn í 88:84. Haukum tókst ekki að svara því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert