Gunnar: Vorum á hælunum

Gunnar H. Stefánsson.
Gunnar H. Stefánsson. mbl.is/Golli

Gunnar Hafsteinn Stefánsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, var vonsvikinn yfir frammistöðu sinna manna í Garðabænum í kvöld. Keflavík tapaði 98:89 fyrir Stjörnunni og er nú 0:2 undir í úrslitakeppninni. 

„Við byrjuðum ágætlega en þar fyrir utan vorum við á hælunum. Einnig kom smákafli í lokin sem var ágætur en það gaf okkur ekki neitt nema sem veganesti inn í næsta leik. Á þeim tímapunkti var þetta töpuð barátta enda spiluðu Stjörnumenn mjög vel. Þeir eiga hrós skilið en mér finnst að við eigum að spila betur en við gerðum í kvöld,“ sagði Gunnar þegar mbl.is ræddi við hann. 

Körfuboltahefðin er mikil og sterk í Keflavík. Þar á bæ hafa menn svo sem upplifað að komast áfram þrátt fyrir að lenda 0:2 undir í úrslitakeppninni. Gunnar segir Keflvíkinga þurfa að nýta þessa viku vel en þriðji leikurinn fer fram í Keflavík á föstudagskvöldið. „Þetta er að sjálfsögðu ekki óskastaða að vera 0:2 undir. Nú höfum sem betur fer þrjá daga, nánast fjóra, til að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Við höfum tíma til að skoða hvað Stjarnan er að gera á móti okkur. Af hverju hættum við að spila eins og við ætluðum okkur að gera? Af hverju fáum við ekki körfur af því tagi sem hafa skilað okkur svo miklu í vetur? Við þurfum auk þess að bæta okkur í vörninni. Við eigum ekki að fá á okkur 98 stig, hvort sem það er í Ásgarði eða annars staðar.“

Gunnar segir það ekki koma sér á óvart að Stjarnan skuli leika vel á þessum tímapunkti þó liðið hafi átt í basli í vetur. „Ég man að ég sagði í viðtali eftir fyrsta leikinn í deildinni, þar sem við unnum Stjörnuna sannfærandi hérna í Ásgarði, að ég væri viss um að sá leikur gæfi ekki rétta mynd af Stjörnuliðinu. Þetta kemur ekkert á óvart þegar Teitur Örlygsson er annars vegar. Hann er hæfur þjálfari og mikill keppnismaður sem ég veit að gefur allt í leikinn. Við þurfum að mæta af sömu hörku í næsta leik,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert