Sigurinn var forljótur

Sigurður Þorvaldsson sækir að körfu Fjölnis í leiknum í kvöld. …
Sigurður Þorvaldsson sækir að körfu Fjölnis í leiknum í kvöld. Davíð Ingi Bustion og Jonathan Mitchell til varnar. mbl.is/Eva Björk

Fjölnir tók á móti Snæfelli í Domino‘s-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Leiknum var að ljúka rétt í þessu sökum tafa þar sem Snæfellingar lentu í bílavandræðum á leiðinni. Það er skemmst frá því að segja að Snæfell vann leikinn 88:84 eftir að hafa verið undir lunga leiks.

Snæfellingar komust yfir við upphaf fjórða fjórðungs og eftir æsispennandi hluta og lokamínútur náðu þeir að halda í litla forystu sem dugði að lokum.

Sigurinn var forljótur í raun því Snæfell lék mjög illa á köflum og geta þakkað Fjölnismönnum fyrir að refsa ekki nægilega vel þegar tækifærin gáfust, og ekki skorti Fjölni tækifærin í leiknum til að stinga gestina af. Það rættist ekki hjá heimamönnnum og verma þeir því enn botn Dominos-deildarinnar.

Leikurinn var í höndum heimamanna fyrstu þrjá fjórðungana og voru þeir alltaf skrefi á undan. Í upphafi fjórða fjórðungs var það Snæfell sem tók öll völd, undir handleiðslu Austin Bracey, sem skoraði fyrstu 7 stig hlutans og hleypti lífsorkunni í sína menn. Reynsla Snæfels réð því að þeir héldu sjó eftir mímörg áhlaup Fjölnis, sem hefðu getað jafnað í lokin og sent leikinn í framlengingu. Það tókst ekki í þetta sinn en þeir mega vel við una því það liggur ljóst fyrir eftir þennan leik að Fjölnir líta töluvert betur út núna en fyrir áramót.

Chris Woods, Austin Bracey og Sigurður Þorvaldsson áttu frábæran dag fyrir Snæfell og svo steig Sveinn Davíðsson fram og átti prýðilegan leik.

Hjá heimamönnum var það liðsheildin sem átti góðan dag; Sindri Kárason var sterkur, Garðar Sveinbjörnsson og Arnþór Guðmundsson voru mjög góðir og í síðasta hlutanum kom Ólafur Torfason gríðarlega sterkur inn og átti möguleika að jafna leikinn en þvi miður fyrir Fjölni tókst það ekki í þetta sinnið. Nýr erlendur leikmaður liðsins, Jonathan Mitchell, komst prýðilega frá þessum leik þó svo að tölurnar hafi skort. Hann spilar flotta vörn og klárlega góður liðsauki fyrir Fjölni.

Gangur leiksins: 9:0, 15:4, 18:14, 19:16, 23:18, 27:24, 34:30, 38:35, 44:39, 48:41, 54:47, 59:59, 62:70, 70:74, 77:80, 84:88.

Fjölnir: Jonathan Mitchell 19/4 fráköst, Sindri Már Kárason 16/9 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 14/5 fráköst, Ólafur Torfason 14, Arnþór Freyr Guðmundsson 11, Róbert Sigurðsson 6/4 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 2, Davíð Ingi Bustion 2/4 fráköst.

Fráköst: 21 í vörn, 9 í sókn.

Snæfell: Christopher Woods 24/13 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 23, Austin Magnus Bracey 18, Stefán Karel Torfason 8/6 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 8/6 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 4, Snjólfur Björnsson 3.

Fráköst: 28 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson, Halldor Geir Jensson.

Bein textalýsing frá leiknum:

Lokatölur í frábærum leik 84:88 - takk fyrir mig

Leik lokið!!! Tvær tilraunir Ólafs við þristinn gengu ekki og það er brotið á Sveini sem fer a línuna... leiknum er lokið í raun og aðeins formsatriði að klára fyrir gestina. Alveg ótrúlegur reynslusigur hjá Snæfell. Lokatölur koma eftir augnablik...

15 sek. - Heimamenn eru að brjóta á Bracey, sem setur bæði annað og staðan 84:87  - Heimamenn geta jafnað með þrist og eru að fara yfir hvað þeir ætla að gera.

26sek. - Mitchell minnkar muninn... en Woods skorar strax... 86:82 Garðar setur vítin sín og tveggja stiga munur

1:08 - ENN stærri þristur í húsið!!! Siggi setur hann og fær vítið að auki!!! 80:84 og heimamenn taka leikhlé. Það virðist sem svo að gestir ætli að stela þessum leik. Mínúta eftir og ég sé reynsluna í Snæfell hafa vinninginn hérna en þetta eru Dalhús og menn gera vel í að muna þá staðreynd og ef gestirnir gleyma því getur allt gerst.

1:17 - RISA-þristur i húsið!!! Arnþór að jafna leikinn, 80:80

2:00 - Óheppnir, klaufar eða eitthvað... heimamenn eru ekki að gera gott mót núna. Staðan 77:80 og heimamenn búnir að klúðra upplögðum færum síðustu sekúndur.

3:20 - Óli Torfa að setja þrist!!! Þetta er svo yndisleg íþrótt! Allt að gerast í Dalhúsum. Staðan 75:76

4:45 - Olafur Torfa að koma sterkur inn hérna en nær ekki að stoppa Sigga undir körfunni. Hörkuleikur í gangi hérna og alveg ómögulegt að spá í spilin núna! Staðan 70:74

5:30 - Varnarleikurinn hefur snúist aðeins við; núna er hún töluvert ákafari og beittari hjá gestunum og útskýrir forystuna vel. Fjölnismenn eru hinsvegar engir pappakassar á nýju ári og klóra í bakkann með þrist og góðri körfu frá Mitchell. staðan 68:72

7:27 - Ólafur Torfa tekur sóknarfrákast og fær víti. Staðan 63:70

8:14 - Aftur skora þeir og staðan núna 61:68 og viðsnúningur í leiknum kannski að renna í hlað?

8:41 - Austin Bracey skorar og kemur sínum mönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum! Svo skellir piltur kirsuberinu á toppinn með þrist og svo fer kauði í hraðaupphlaup og fær tvö vítaskot!!! Hvað er að gerast hérna hjá Fjölni? Staðan orðin 59:64!!!
Þetta er reynslan að koma í gegn hjá Snæfell, sem hefur dúllað sér allan leikinn og svo þegar 10 mín. eru eftir er skrúfað frá öllu gasi! Flott hjá þeim að bíta frá sér núna, andlega sterkur leikur að hætti Bobby Fisher!

Þriðja hluta lokið: Allt jafnt, 59:59 - Heimamenn klaufar í lokin; fengu á sig flautuþrist frá Óla Ragnari og leikurinn allt í einu orðinn hnífjafn. Snæfell eru að sýna styrk sinn núna og kænsku en það verður ekki tekið af heimamönnum að þeir líta betur út en það spyr enginn að því þegar feita konan syngur.

0:15 - Austin Bracey minnkar muninn en Mitchell skorar strax hinum megin og leikurinn er kominn í lögreglu-járn! Staðan 59:56

1:45 - Varnarleikur Snæfells hefur harðnað ögn og álitlegri núna. Fjölnismenn eru ekkert á þeim buxunum að slaka neitt á og eru alltaf beittari í öllum aðgerðum, sókn sem vörn. Staðan 56:51 í hörkuleik!

2:40 - Róbert Sigurðarson setur þrist fyrir heimamenn og Óli Ragnar fer á línu fyrir Snæfell. Hann klikkar úr báðum og Siggi nær frákastinu og svo er brotið á honum í þriggja stiga skoti. Hann lagar stöðuna fyrir sína menn, 54:48

3:13 - Þrátt fyrir að vaða í dauðafærum til að stinga gestina af þá vantar alltaf herslumuninn góða. Siggi Þorvlds setur þrist sem Arnþór svarar um hæl og staðan 51:45

7:47 - Sindri Kára er að "skóla" Woods til á blokkinni eins og Kevin McHale í denn... Sindri kominn með 12 stig og þá hann sé ekki sá sneggsti er hann lúnkinn með vinstri höndina sína að vopni... Staðan 44:39

Seinni hálfleikur hafinn:

8:51 - Aftur  byrja heimamenn betur! Sindri skorar og fær víti. Sókn gestanna virðist alltaf þurfa einhvern tíma til að átta sig á hvað er að gerast áður en vélin fer í gang. Staðan 43:36

Hálfleikur: Fjölnir eru að spila mun betur en ég hef séð til þeirra í vetur. Mitchell er flottur leikmaður fyrir þetta lið; hann spilar fína vörn og hjálparvörn og er með góðar hreyfingar á blokkinni, sem og gott "touch" nálægt körfunni. Sindri, Arnþór og Garðar hafa spilað mjög vel í sókninni en það er varnarleikur heimamanna sem stendur hérna uppúr í hálfleiknum og er grunnurinn á forystu þeirra. Þeir voru klaufar að hleypa Snæfell aftur inní leikinn við lok hálfleiksins og ættu með réttu að vera rúmum 10 stigum yfir ef klaufaskapurinn hefði ekki herjað svona hressilega á mannskapinn.

Snæfell eru ekki að spila vel heilt yfir en eiga þessa spretti sem útiloka það að þeir missi heimamenn langt frá sér. Siggi er að spila mjög vel í sókn en aðrir eru undir getu sóknarlega. Það er kannski ekki skrýtið þar sem sóknarskipulagið er ekki alveg nægilega vel útfært. Varnarleikur liðsins er götóttur í besta falli og geta leikmenn þakkað klaufaskap heimamanna að vera ekki rúmum 10 stigum undir í hálfleik. Ég á ekki von á að annað hvort liðið missi hitt of langt fram úr sér. Til þess þarf hrun að eiga sér stað og afar ólíklegt að mínu mati. Þetta verður hörkuspenna og yndislegt áhorf!

Hálfleikur - Fjölnir eru að ná aftur tökum á leiknum á meðan skitan þekur snæfellsliðið í sókninni. Svæðivörn heimamanna heldur vel á meðan gestirnir hitta ekki úr þristunum sínum. Siggi er hinsvegar ekki þessi týpa að klikka mikið og setur þrist í andlitið á svæðisvörninni og lagar stöðuna fyrir leikhlé. Sindri Kárason klúðrar svo boltanum sérlega illa og Sveinn skorar... Aftur leikur! Staða 38:35

1;44 - Makalaust... veit ekki hvort það sé slæmt, en Snæfell hafa tapað boltanum 10 sinnum. Ég gruna að þetta sé slæmt en ekki viss! Staðan 36:30

3:12 - Annþór setur loksins þrist og Woods treður í sínu svari! Siggi Þorvalds setur þrist í sama svari og staðan 32:30

4:10 - Ákefðin og líkamsbeiting heimamanna í vörninni er áberandi meiri en hjá Snæfell. Þetta verða gestirnir að laga. Fjölnismenn virðast alltaf komast upp að körfunni þegar þeir reyna! 29:25

5:11 - Sveinn Arnar reyndi annan þrist en núna braut hann næstum því spjaldið! Það er stundum svoleiðis hjá honum; annað hvort SWISS! eða ónýtt spjald! Bæði lið í ruglinu núna; kasta boltanum frá sér klaufalega... Staðan 27:24 og klárlega áhugaverður leikur hérna í uppsiglingu...

6:22 - Sindri Kárason er að spila vel fyrir heimamenn og kominn með 8 stig en það sem vekur athygli mína er að 8 leikmenn þeirra hafa komist á blað! Staðan 27:23

7:48 - Emil skorar sín fyrstu stig og smá stemning myndast í stúkunni. VArnarleikur gestanna er síðhærður af elli en heimamenn ná ekki að nýta sér þennan veikleika nægilega vel! Staðan 23:18

Fyrsta hluta lokið: Staðan 19:16 - EFtir frábæra byrjun dalaði leikur heimamanna og Snæfell komst aftur inní leikinn. Þetta gerist alltof auðveldlega fyrir minn smekk og synd fyrir heimamenn að fá glutra þessu svona niður. Varnarleikur Fjölnis hefur verið prýðilegur; svæðisvörnin sem þeir skipta stundum yfir í er hreyfanleg og góð hjálp í henni. Sóknin hefur hinsvegar ekki náð sömu hæðum og á fyrstu mínútum leiksins. Snæfellsliðið virðist ekki ennþá komið í neinn gír og sóknin oft tilviljunarkennd en það er ljóst að hér fer hörkuleikur....

1:44 - Gaman frá því að segja að Mitchel lítur bara nokkuð vel út og ég ætla ekki að lá honum fyrir að vera örvhentari en maður með enga hægri hönd... Leikurinn hefur dottið aðeins niður í tempói núna, enda hafa Snæfellingar náð að jafna sig eftir rútuferðina. Það er ánægjulegt fyrir þá að "aukaleikarar" liðsins eru að komast í góðan takt við leikinn. Staðan 18:14 og allt í járnum núna þó svo að heimamenn séu með betri tök á sínum leik.

2:55 - Heimamenn hafa ekki náð að fylgja góðri byrjun eftir og hafa hleypt gestunum aftur inní leikinn en eru samt sem áður að spila mun betur. Staðan 17:14

3:45 - Sveinn Davíðsson lagar stöðuna fyrir Snæfell með þrist og Stefán Karel setur tvö víti og staðan 15:9

4:29 - Það er einfaldlega allt annað að sjá Fjölnisliðið frá því fyrir áramót. Holningin á liðinu er góð. Þeir skipta á milli varnar og pressa eftir skoruð stig. Boltinn rúllar vel í sókninni og menn eru ekki að æðibunast í fyrsta skotið! Þetta eru gleðitíðindi fyrir botnliðið. Staðan 15:4

6:52 - Snæfell spilar illa í upphafi; vörnin er alltof afslöppuð og sóknin í tómu rugli. Ingi hlýtur að taka leikhlé núna því staðan er 11:2 - þetta reyndist réttur grunur, leikhlé! Það er alveg ljóst að grimmd og leikgleði heimamanna er mun meiri en gestanna sem eru líklega enn með hugann við lag Ómars Ragnarssonar...

8:30 - Heimamenn byrja leik vel. Vörnin er þétt og sóknin að rúlla vel og menn að finna góð skot. Garðar Sveinbjörnsson skorar og fær körfu góða og víti. Staðan 7:0

Leikur hafinn

19:23 - Það verður spennandi að sjá hvernig Jonathan Mitchell, nýi erlendi leikmaður heimamanna, kemur út í kvöld. Hann fær ærið verkefnið að gæta Woods og í ofanálag verður að leggja þær kröfur á pilt að hann skili að lágmarki tvennu í leiknum, og það þarf að vera há-tvenna! Það sem ég hef hinsvegar meiri áhyggjur af fyrir heimamenn er að aðrir skili sínu því oft gerist það nú að "aukaleikara" í liðum eiga það til að leyfa erlenda leikmanninum að sýna sig og verða fyrir vikið sjálfir hálfgerðir áhorfendur. En þetta kemur allt í ljós eftir örfáar mínútur.

19:18 - Jæja, mín tilfinning varðandi töf á leiknum reyndist ekki rétt (ekki góðs viti fyrir heimamenn þar sem ég hef einnig "góða" tilfinningu fyrir leik þeirra í kvöld) en við skulum ekki telja eggin fyrr en þau eru komin í körfuna. 15 mínútna töf verður á leiknum og reiknast mér þá til að það séu nákvæmlega 12 mínútur þar til leikur hefst. Þetta er vegna erfiðleika Snæfells að komast í Dalhús. Sýnið þolinmæði.

19:15 - Ég hef góða tilfinningu fyrir Fjölnisliðinu í kvöld og þó sú tilfinning sé sérlega óáræðanleg finnst mér eins og holningin á liðinu sé betri en fyrir jól. Þessi tilfinning kemur beint úr mínum eigin reynslubanka... Þegar lið fá nýjan erlendan leikmann fyllast menn oft eldmóði og sprengjukraft sem hefur ekki sést áður. Ekki sérlega vísindaleg niðurstaða en hér er hún nú samt! Það er ljóst að til þess að vinna þurfa heimamenn frábæran leik og allir sem vettlingi geta valdið í sókn þurfa að stíga fram og láta sjá sig. Það mikilvægasta er hinsvegar varnarleikurinn og þar þarf að mynda þétta liðsheild og passa að byrjunarlið Snæfells nái ekki að finna sinn takt.

19:08 - Snæfell spilaði ekki vel fyrir áramót en átti þó spretti. Það kemur kannski ekki mikið á óvart þar sem breiddin er ekki mikil og það hefur mikið mætt á byrjunarliðinu. Þessi uppskrift hefur oftar en ekki aukaverkarnir: óstöðugleika! Það verður hinsvegar að hafa í huga að byrjunarliðið er fantaflott og getur "match-að" upp gegn bestu liðum landsins án þess að vera skömmustulegir. Bracey, Stefán Karel, Siggi Þorvalds og Chris Woods hafa dregið þennan vagn, með Pálma "gamla" í skottinu til að stíga upp þegar einhver ætlar sér að slaka á í sínu hlutverki.

18:55 - Ég er mættur í Dalhús þar sem heimamenn eru að gera sig klára. Það bólar hinsvegar ekkert á frændum þeirra frá Hólminum. Ég fékk þær fréttir áðan að bíllinn sé að "skrölta" áfram í höfuðstaðinn með aðeins þrjú hjól undir bílnum og við vonum að allt sé í lagi og að þeir mæti tímanlega. Ég á ekki von á töf þrátt fyrir þetta.

Mikilvægi þessa leiks ætti að vera engum dulið; Fjölnismenn þurfa á öllum stigum að halda og myndu að öllum líkindum vilja semja um jafntefli til að fá stigið, slík er þeirra þörf á stigum á botni deildarinnar. Hinsvegar, þá eru Fjölnismenn að tefla fram nýjum erlendum leikmanni, töluvert nýrri en m.a.s. Rodney Alexander, og þeir virðast ætla sér að setja svolítið "trukk" í þetta á seinni helmingi tímabilsins. Emil Jóhannsson er komin til liðs við Fjölni og þar fer drengur sem ætti að hjálpa liðinu mikið þar sem sóknarleikur liðsins hefur verið afar takmarkaður. Þessi leikur ætti að hafa allt sem prýðir góðan boltaleik og vonandi fyrir heimamenn þá sýnir nýji "kaninn" þeirra þá hæfileika sem liðið er að leita eftir.

Snæfell er í 8. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 11 leiki, jafnt Grindavík og Þór frá Þorlákshöfn, en Fjölnismenn sitja á botninum með 4 stig, jafnmörg og Skallagrímur og ÍR sem eru í næstu sætum fyrir ofan.

Róbert Sigurðsson og Stefán Karel Torfason eigast við í leiknum …
Róbert Sigurðsson og Stefán Karel Torfason eigast við í leiknum í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir
Austin Magnus Bracey úr Snæfelli sækir að körfu Fjölnis.
Austin Magnus Bracey úr Snæfelli sækir að körfu Fjölnis. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Pálmi Sigurgeirsson sækir að körfu Fjölnis.
Pálmi Sigurgeirsson sækir að körfu Fjölnis. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert