Vel útfærður leikur hjá okkur

Emil Barja og Darrel Lewis í leiknum í kvöld
Emil Barja og Darrel Lewis í leiknum í kvöld mbl.is/Golli

„Við útfærðum leik okkar mjög vel í kvöld. Spiluðum fast eins og við höfum gert allt tímabilið og héldum áfram að keyra á þá,“ sagði Darrel Lewis leikmaður Tindastóls við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Hans menn sigruðu Hauka 86:74 og eru 2:0 yfir í einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Stólunum nægir því einn sigur í viðbót til að komast í úrslitin.

„Við reynum alltaf að spila fasta vörn, þetta hefst allt á vörninni.“ Það eru orð að sönnu hjá Lewis, enda skoruðu Haukar eingöngu 30 stig í fyrri hálfleik, þar af bara 12 í öðrum leikhluta.

En er jafn reynslumikill leikmaður og Lewis farinn að leiða hugann að úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn? „Nei, við þurfum að sigra Hauka einu sinni eftir. Að því loknu getum við farið að hugsa um úrslitaeinvígið,“ sagði Darrel Lewis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert