„Mín stærsta áskorun til þessa“

Benedikt Guðmundsson
Benedikt Guðmundsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta er sú mesta áskorun sem ég hef tekið,“ sagði körfuknattleiksþjálfarinn Benedikt Guðmundsson í samtali við mbl.is en í dag skrifaði hann undir þriggja ára samning um að þjálfa meistaraflokksliðin hjá Þór á Akureyri sem bæði eru í 1. deild. 

Kvennalið Þórs hafnaði í 4. sæti í 1. deild en karlaliðið í 8. og neðsta sæti með aðeins einn sigur. Benedikt hefur áður tekið við Fjölni og Þór Þorlákshöfn í 1. deild og komið liðunum upp í úrvalsdeild og þar í úrslitakeppnina. Benedikt er bjartsýnn á gott gengi á Akureyri.

 „Ég sé endalaus tækifæri. Akureyri er frábær staður og ágætlega stór markaður. Ég hef starfað á minni markaði en þessum. Ég neita því ekki að það þarf að taka til hendinni en ég er bara með háleit markmið. Fyrst og fremst er það að styrkja körfuboltann á Akureyri, hvort sem það eru meistaraflokkarnir eða yngri flokkarnir. Mér finnst að svona bær þurfi að eiga gott körfuboltalið sem sé nokkuð stöðugt. Við eigum að geta fengið leikmenn upp í meistaraflokkana reglulega og haldið liðunum í úrvalsdeildarklassa,“ sagði Benedikt ennfremur og hann horfir til þess að koma liðunum í úrvalsdeildirnar. 

„Ég set stefnuna á efstu deild sem allra fyrst. Hvort það takist á fyrsta ári verður bara að koma í ljós en maður horfir á að ná því á öðru ári, ekki seinna. Þá séum við í efstu deild á þriðja ári eða lokaári samningsins. Ég tæki þetta ekki að mér ef ég tryði ekki að það væri hægt,“ sagði Benedikt Guðmundsson.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert