Washington heldur sigurgöngunni áfram

Bradley Beal skorar fyrir Washington í leiknum í Atlanta í …
Bradley Beal skorar fyrir Washington í leiknum í Atlanta í kvöld. AFP

Washington Wizards virðist ætla að verða spútnikliðið í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Eftir að hafa slegið Toronto Raptors út á sannfærandi hátt í fyrstu umferð, þrátt fyrir að hafa endað neðar í Austurdeildinni, gerðu Töframennirnir frá höfuðborginni sér lítið fyrir og lögðu sigurvegar Austurdeildarinnar, Atlanta Hawks, á útivelli í kvöld, 104:98, í fyrsta leik liðanna.

Þriðji útisigurinn í þessari úrslitakeppni varð staðreynd eftir að Atlanta gaf eftir þegar leið á leikinn. Lið Washington hafði verið í viku hvíld á meðan Atlanta fór í sex leiki gegn Brooklyn og það sást á liðunum á lokasprettinum.

Bradley Beal skoraði 28 stig fyrir Washington en DeMarre Carroll 21 fyrir Atlanta.

Golden State Warriors, besta lið vetrarins í NBA og sigurvegarar Vesturdeildar, voru hinsvegar ekki í teljandi vandræðum og unnu Memphis Grizzlies á heimavelli, 101:86, í kvöld, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar.

Stephen Curry skoraði 22 stig fyrir Golden State og átti 7 stoðsendingar. Klay Thompson skoraði 18 stig og Draymond Green 16. Hjá Memphis var Marc Gasol með 21 stig og Zach Randolph 20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert