Heitir en ekki þreyttir

Blake Griffin með boltann í leiknum í nótt og Trevor …
Blake Griffin með boltann í leiknum í nótt og Trevor Ariza leikmaður Houston hefur gætur á honum. AFP

Leikmenn Los Angeles Clippers eru greinilega heitir en ekki þreyttir eftir að hafa sigrað meistara San Antonio Spurs í sjö leikja einvígi því þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu Houston Rockets á útivelli, 117:101, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í körfubolta í nótt.

Staðan í hálfleik var 50:46 fyrir Houston en Clippers sneri leiknum sér í hag í seinni hálfleik, staðan var 83:77 eftir þriðja leikhluta og liði frá Englaborginni sigldi sextán stiga sigri í höfn í kjölfarið.

Þeir létu meiðslafjarveru Chris Paul ekki hafa áhrif á sig. „Þegar Chris spilar ekki verða aðrir að lyfta sínum leik. Það er ekki eins manns verk heldur allra. Og þegar þið lítið á tölfræði leiksins sjáið þið að allir tóku þátt," sagði Blake Griffin, sem sjálfur átti stærsta framlagið því hann skoraði 26 stig, tók 14 fráköst og átti 13 stoðsendingar - náði öflugri þrefaldri tvennu. Jamal Crawford skoraði 21 stig og Matt Barnes 20.

Dwight Howard skoraði 22 stig fyrir Houston og tók 10 fráköst og James Harden skoraði 20 stig en tapaði boltanum níu sinnum.

Cleveland tapaði heima gegn Chicago

Í Cleveland var líka um útisigur að ræða en þar tók Chicago Bulls forystuna í einvígi liðanna með því að vinna fyrsta leikinn 99:92. Derrick Rose sýndi allar sínar bestu hliðar og skoraði 25 stig og Pau Gasol gerði 21. Kyrie Irving skoraði 30 stig fyrir Cleveland og LeBron James skoraði 19 stig og tók 15 frákösst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert