Stórsigur stúlknanna og sigur í C-deildinni

Íslenska stúlknalandsliðið sem sigraði með yfirburðum í Andorra.
Íslenska stúlknalandsliðið sem sigraði með yfirburðum í Andorra. Ljósmynd/kki.is

Stúlknalandslið Íslands í körfuknattleik tryggði sér í gærkvöld sigur í C-deild Evrópumóts U16 ára í Andorra með því að sigra Armeníu í úrslitaleik með miklum yfirburðum, 76:39.

Íslensku stúlkurnar voru í sérflokki á mótinu en þær unnu Möltu 69:37, Andorra 97:31 og Wales 86:20 í hinum leikjum sínum.

Fyrri hálfleikur gegn Armeníu var þó jafn því Ísland var með nauma forystu eftir fyrsta leikhluta, 18:15, og í hálfleik var staðan 33:24. Í seinni hálfleiknum var hinsvegar um algjöra yfirburði íslensku stúlknanna að ræða.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir úr KR var stigahæst í leiknum með 16 stig, 2 fráköst og 4 stoðsendingar, Katla Rún Garðarsdóttir úr Keflavík var með 15 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar og Hera Sóley Sölvadóttir úr Njarðvík var með 11 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar.

<br/>

Þóranna Kika Hodge-Carr frá Keflavík var kjörin besti leikmaður mótsins og var í úrvalsliði mótsins ásamt Dagbjörtu Dögg. Ísland leikur nú í B-deild á næsta Evrópumóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert