„Maður á að vera drullusvekktur“

Jón Arnór Stefánsson var sár og svekktur að tapleiknum loknum gegn Þýskalandi í fyrsta leiknum á EM í Berlín en sagðist vera að jafna sig þegar mbl.is tók hann tali í Mercedez Benz höllinni þar sem rúmlega 12 þúsund manns fylgdust með leiknum. 

„Ég held að við eigum það skilið að vera jákvæðir og stoltir eftir þennan leik. Við börðumst allan tímann og vorum greinilega allir tilbúnir í þetta verkefni,“ sagði Jón meðal annars við mbl.is en hann lét ekki sitt eftir liggja og skoraði 23 stig í leiknum. Bakverðir Þjóðverja réðu lítið við hann og þurftu yfirleitt að fá hjálp til að reyna að stöðva Jón. Þá losnaði um aðra leikmenn Íslands sem fengu þá í mörgum tilfellum opin skotfæri. 

„Það sem gerir þetta sárara var að við trúðum því að við gætum unnið. Það á að vera þannig. Maður á að vera drullusvekktur eftir svona leiki. Maður á ekkert að vera sáttur við að tapa með litlum mun fyrir svona sterkri þjóð og allt það.“

Viðtalið við Jón í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.  

Anton Gavel reynir að stöðva Jón Arnór Stefánsson í leiknum …
Anton Gavel reynir að stöðva Jón Arnór Stefánsson í leiknum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert