Curry stigahæstur í enn einum sigri

Stephen Curry t.v. sækir að Ty Lawson leikmanni Houston Rockets …
Stephen Curry t.v. sækir að Ty Lawson leikmanni Houston Rockets í leiknum í gærkvöldi þar sem Curry og félagar í Golden State Warriors höfðu betur eins og svo oft áður á keppnistímabilinu. AFP

Steven Curry skoraði 35 stig þegar Golden State Warriors vann 47. leik sinn á keppnistímabilinu í NBA-deildinni í körfuknattleik í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Warriors vann þá Houston Rockets, 123:110 á heimavelli. 

Það var þó ekki fyrr en í fjórða og síðasta leikhluta sem leiðir skildu með liðunum  í Oracle Arena, heimavelli Warriors. Þegar lokaleikhlutinn hófst var staðan jöfn, 93:93. 

Næstur á eftir Curry í stigaskorun hjá heimaliðinu var Harrison Barnes með 19 stig. Þar á eftir kom Marreese Speights með 15 stig. James Harden átti stórleik fyrri Rockets. Hann skoraði 37 stig og Trevor Ariza skoraði 19 stig og Dwight Howard skoraði 15 stig auk þess að taka 16 fráköst. 

San Antonio Spurs er á góðu skriði í deildinni eins og Warrios. Spurs vann sinn 44. leik af af 52 á leiktíðinni þegar liðið lagði Miami Heat, 119:101, í American Airlines Arena á Miami. LaMarcus Aldridge skoraði 28 stig fyrir Spurs og  Kawhi Leonard 23. Dwyane Wade skoraði 20 stig fyrir Heat og Chris Bosh 18. 

Kurt Rambis tókst ekki að stýra New York Knicks til sigurs í sínum fyrsta leik sem þjálfari liðsins en hann tók tímabundið við á þriðjudaginn. Knicks tapaði á heimavelli fyrir Washington, 111:108. John Wall skoraði 28 stig fyrir Washington-liðið og átti auk þess 17 stoðsendingar. Bradley Beal var næstur með 26 stig. Carmelo Anthony skoraði 33 stig fyrir Knicks og tók 13 fráköst. Kristaps Porzingis var næstur með 20 stig. 

Fimm leikir voru á dagskrá NBA-deildarinnar í gærkvöldi og í nótt. Úrslit þeirra voru eftirfarandi:

Miami Heat - San Antonio Spurs 101:119
New York Knicks - Washington 108:111
Milwaukee - Boston 112:111
Dallas - Utah jazz 119:121 - eftir framlengingu
Golden State Warriors - Houston Rockets 123:110

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert