Þegar skotin fóru að detta leið mér vel

Finnur Freyr með bikarinn í fanginu fyrir framan stuðningsmenn KR.
Finnur Freyr með bikarinn í fanginu fyrir framan stuðningsmenn KR. Golli-Kjartan_Thorbjornsson

„Þórsararnir spiluðu einstaklega vel, en við betur og mér fannst við eiga sigurinn skilinn þegar upp er staðið. Við náðum að halda sama dampi allan leikinn sem var afskaplega mikilvægt. Við héldum skynseminni allan tímann og sigldum sigrinum í land og bikarinn er okkar,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir 95:79 sigur sinna manna gegn Þór Þorlákshöfn í úrslitaleik Powerade-bikars karla í körfuknattleik í dag. 

„Helgi Már [Magnússon] hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli síðastliðið ár og er að nálgast sitt fyrra form. Það er gulls ígildi að hafa Helga í liðinu og hann skipti sköpum í þessum leik. Ég fann það á mér fyrir leikinn að hann myndi eiga góðan leik og það var raunin,“ sagði Finnur Freyr um frammistöðu Helga Más sem var stigahæstur í liði KR.  

„Þegar skotin fóru að detta og við fórum að taka hafa betur í baráttunni um fráköstin þá leið mér vel. Ég var hins vegar aldrei rólegur þar sem Þór Þorlákshöfn hafði náð mörgum góðum áhlaupum á okkur í leiknum. Nú er bikarinn kominn í fangið á okkur og það er gríðarlega góð tilfinning,“ sagði Finnur Freyr sem stýrði KR liðinu til sigurs í bikarnum í 11. skipti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert