Haukur samdi við Njarðvík - Bonneau áfram

Haukur Helgi Pálsson var kjörinn besti leikmaður síðustu leiktíðar í …
Haukur Helgi Pálsson var kjörinn besti leikmaður síðustu leiktíðar í Dominos-deild karla. mbl.is/Styrmir Kári

Haukur Helgi Pálsson mun spila áfram með Njarðvík fari svo að hann spili í Dominos-deildinni í körfubolta á næstu leiktíð, en hann hefur skrifað undir samning þess efnis.

Klásúla er í samningnum sem gerir Hauki kleyft að ganga til liðs við erlent félag ef ákjósanlegt tilboð berst, eins og það er orðað í tilkynningu á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Haukur var kjörinn besti leikmaður Dominos-deildar karla á nýafstaðinni leiktíð.

Bandaríski leikstjórnandinn Stefan Bonneau, sem gat nánast ekkert leikið með Njarðvík í vetur vegna meiðsla en fór á kostum með liðinu á þarsíðustu leiktíð, verður áfram hjá Njarðvík. Haft er eftir Gunnari Örlygssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, að Bonneau verði orðinn leikfær aftur í haust, um það bil sem deildin hefst að nýju, en hann sleit hásin öðru sinni í úrslitakeppninni nú í vor.

Gunnar segir að nú vanti miðherja í Njarðvíkur-liðið, og vonast til þess að það takist að landa 1-2 góðum leikmönnum áður en næsta leiktíð hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert