Jón og félagar að missa Real upp fyrir sig?

Jón Arnór Stefánsson setti sjö stig í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson setti sjö stig í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Jón Arnór Stefánsson skoraði sjö stig fyrir Valencia í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Unicaja, 77:65, í næstsíðustu umferð spænsku 1. deildarinnar í körfubolta.

Valencia á þar með á hættu að missa Real Madrid upp fyrir sig í 2. sæti deildarinnar en liðiðn höfðu bæði unnið 27 leiki og tapað fimm fyrir næstsíðustu umferðina. Real á hins vegar erfiðan leik fyrir höndum á morgun, gegn Laboral Kutxa sem ljóst er að endar í 4. sæti deildarinnar.

Unicaja var fimm stigum yfir í hálfleik í leiknum í kvöld, 42:37, eftir að Jón skoraði síðustu stig hálfleiksins. Unicaja byrjaði seinni hálfleik hins vegar vel og náði sautján stiga forskoti, og tókst að halda Valencia frá sér til loka leiksins.

Ef Valencia endar í 3. sæti mun liðið líklega mæta Unicaja í 8-liða úrslitunum þegar úrslitakeppnin hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert