Miami knúði fram oddaleik

Dwyane Wade sækir að körfu Toronto, gegn Cory Joseph, í …
Dwyane Wade sækir að körfu Toronto, gegn Cory Joseph, í sigri Miami í nótt. AFP

Enn er óráðið hvaða lið mætir Cleveland Cavaliers í úrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta eftir að Miami Heat vann Toronto Raptors í nótt, 103:91.

Þar með jafnaði Miami einvígið í 3:3 og mætast liðin í oddaleik kl. 20.30 á sunnudagskvöld, á heimavelli Toronto. Sigurvegarinn heldur svo til Cleveland aðfaranótt miðvikudags. Úrslitaeinvígi vesturdeildar, á milli Oklahoma City Thunder og Golden State Warriors, hefst aðfaranótt þriðjudags.

Slóveninn Goran Dragic fór fyrir liði Heat í nótt og skoraði 30 stig, og Dwyane Wade bætti við 22 stigum.

Miami var níu stigum yfir í hálfleik, 53:44, og tíu stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 82:72. Toronto náði aldrei áhlaupi í lokin til þess að hleypa verulegri spennu í leikinn og því ljóst að liðin mætast sjöunda sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert