Meistararnir steinlágu

Russell Westbrook reynir skot en Draymond Green og Stephen Curry …
Russell Westbrook reynir skot en Draymond Green og Stephen Curry eru til varnar. AFP

Oklahoma City Thunder lék NBA-meistarana í körfubolta, Golden State Warriors, grátt í þriðja leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar í nótt og vann stórsigur, 133:105. Staðan er því 2:1 fyrir Oklahoma.

Leikmenn Oklahoma fóru á kostum í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 72:47. Þeir létu ekki þar við sitja heldur skoruðu 45 stig í þriðja leikhluta og eftir hann voru ótrúlegar tölur á töflunni, 117:80. Um tíma munaði 41 stigi á liðunum. Golden State náði aðeins að rétta sinn hlut á lokakaflanum.

Kevin Durant skoraði 33 stig fyrir Oklahoma og Russell Westbrook skoraði 30, átti 12 stoðsendingar og tók 8 fráköst.

Stephen Curry skoraði 24 stig fyrir Golden State sem þekkir ágætlega að vera 2:1 undir í úrslitakeppninni því það gerðist í tvígang í fyrra þegar liðið vann meistaratitilinn.

„Í bæði skiptin var valtað yfir okkur í þriðja leik, og við svöruðum fyrir okkur, svo við þekkjum það. Ég er sannfærður um að við munum spila vel í fjórða leiknum. Sjáum til hvað gerist," sagði Steve Kerr þjálfari Golden State.

Fjórði leikurinn fer einnig fram í Oklahoma annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert