Jón Arnór í stöðu leikstjórnanda?

Jón Arnór Stefánsson í landsleik.
Jón Arnór Stefánsson í landsleik. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Jón Arnór Stefánsson kann að verða færður í stöðu leikstjórnanda í fjórða leik Valencia og Real Madrid í undanúrslitum spænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik í kvöld. Valencia, sem lék svo vel í vetur, stendur nú skyndilega frammi fyrir miklum forföllum vegna meiðsla.

John Shurna varð fyrir því óláni að handleggsbrotna í þriðja leiknum, sem Valencia vann 87:86 á þriðjudagskvöldið. Shurna lenti illa þegar stuggað var við honum þegar hann reyndi að troða boltanum í körfuna. Bein í upphandlegg brotnaði og ljóst er að hann verður ekki meira með. Þetta áfall bætist ofan á fleiri óhöpp hjá Valencia. Luke Sigma meiddist fyrir úrslitakeppnina og er einnig úr leik. Þá er leikstjórnandinn Antoine Diot meiddur og lék Jón stöðu leikstjórnanda undir lok síðasta leiks. Ekki eru öll vandræði Valencia þá upptalin því Rafa Martinez handarbrotnaði í leik númer tvö.

Verkefni kvöldsins hjá þunnskipuðu liði Valencia er því allt annað en auðvelt, þar sem Real Madrid er ríkjandi meistari auk þess að hafa sigrað í Euroleague í fyrra. Real er 2:1 yfir í rimmunni, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit.

Jón Arnór fær verðugt verkefni að glíma við bakverði Real, en þeir Sergio Llull og Rudy Fernandéz voru báðir í Evrópumeistaraliði Spánverja síðasta haust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert