Veikindi hjá íslenska liðinu

Ægir Þór Steinarsson, til vinstri, veiktist í gærkvöldi. Jón Arnór …
Ægir Þór Steinarsson, til vinstri, veiktist í gærkvöldi. Jón Arnór Stefánsson, til hægri, er að jafna sig á meiðslum. Logi Gunnarsson, í miðið, er hins vegar kattfrískur. mbl.is/Eggert

Veikindi hafa herjað á íslenska landsliðið í körfuknattleik, sem undirbýr sig nú fyrir leik gegn Svisslendingum ytra klukkan 15.30 í dag í undankeppni Evrópumótsins. Karfan.is greinir frá.

Ísland tapaði fyrir Belgíu á miðvikudag, en í ferðalaginu til Sviss varð Hörður Axel Vilhjálmsson veikur og missti af æfingu landsliðsins í gær. Martin Hermannsson veiktist fyrir leikinn gegn Belgíu, en báðir eru þeir með á æfingu landsliðsins nú í morgunsárið fyrir leikinn síðdegis.

Ægir Þór Steinarsson veiktist hins vegar í gærkvöldi og óvíst er með þátttöku hans í leiknum í dag, en ástand hans verður að fullu metið rétt fyrir leik. Hins vegar virðist Jón Arnór Stefánsson allur vera að koma til eftir meiðsli og líklegt má telja að hann verði í hópnum í dag.

Jón var ekki með gegn Kýpur fyrir viku né gegn Belgíu, en hann var sendur til Spánar í aðhlynningu, að því er karfan.is greinir frá. Hann hitti íslenska liðið svo aftur í Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert