Fyrra skrefið í átt að markmiðinu

Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mætir Kýpur í næstsíðustu umferð í undankeppni Evrópumótsins 2017 í Laugardalshöllinni í kvöld.

Íslenska liðið er í góðri stöðu hvað það varðar að komast í lokakeppnina þrátt fyrir svekkjandi tap gegn Sviss á útivelli í síðustu umferð um helgina. Ísland er í öðru sæti riðilsins með sex stig, tveimur stigum á eftir Belgíu sem er á toppi riðilsins og einu stigi á undan Sviss og Kýpur sem eru jöfn að stigum í þriðja og fjórða sæti riðilsins.

Sigur gegn Kýpur í kvöld þýðir að líklega verður allt undir þegar liðið mætir Belgíu í síðustu umferð undankeppinnar í Laugardalshöllinni á laugardaginn kemur.

Tap kemur Íslandi aftur á móti í afar erfiða stöðu og ljóst er að íslenska liðið verður að leggja allt undir til þess að sigra í kvöld.

Ísland lagði Kýpur nokkuð örugglega að velli, 75:64, þegar liðin mættust í fyrri leik liðanna í undankeppninni í Nikósíu. Kýpur er hins vegar með öflugt lið og von er á hörkuleik í kvöld.

Við verðum að spila af skynsemi

„Við verðum að hugsa um eitt verkefni í einu og byrja á því að einbeita okkur að því að leggja Kýpur að velli. Til þess að vinna Kýpur verðum við að vinna saman og spila af hörku á báðum endum vallarins. Kýpur er með líkamlega sterkt lið og við verðum að vinna saman í varnarleiknum og láta boltann ganga hratt í sóknarleiknum,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við Morgunblaðið.

„Við verðum að fækka mistökum frá síðasta leik af því að okkur verður refsað fyrir þau mistök sem við gerum. Við verðum að gleyma vonbrigðunum frá tapinu gegn Sviss og mæta klárir til leiks í leikinn gegn Kýpur. Þetta er enn í okkar höndum þrátt fyrir tapið, sem er jákvætt, og riðilinn getur þróast á marga vegu. Við verðum að einbeita okkur að þeim leikjum sem fram undan eru og ef við spilum af fullum krafti vinnum við þá,“ sagði Craig spurður um hvað liðið þyrfti að bæta frá tapinu gegn Sviss.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert