Þetta er náttúrlega bara Superman

Kristófer Acox (t.h.) og Martin Hermannsson sækja að vörn Kýpur.
Kristófer Acox (t.h.) og Martin Hermannsson sækja að vörn Kýpur. mbl.is/Árni Sæberg

„Við töluðum um það í hálfleik að halda uppi hraðanum. Þeir hafa ekki mikla breidd á meðan við höfum stóran og góðan hóp. Það var ekki séns að þeir gætu hlaupið með okkur í 40 mínútur,“ sagði Kristófer Acox eftir sannfærandi sigur 84:62 sigur Íslands gegn Kýpur í undankeppni Evrópumótsins 2017.

Kristófer átti góða innkomu í leiknum, skoraði 10 stig og tók sjö fráköst en framherjinn sterki barðist vel undir körfunni allan leikinn. Kristófer tekur undir með blaðamanni að hans hlutverk sé að koma með mikla orku og sprengikraft inn í leikinn og það hafi tekist vel í kvöld.

„Ég fann það úti gegn Sviss að orkan var að verða búin eftir langt ferðalag. Svo kemur maður heim, spilar fyrir framan sitt fólk og finnur annan gír.“

Kristófer er stöðugt í baráttunni undir körfunni og þar hefur hann góða fyrirmynd í fyrirliðanum Hlyni Bæringssyni.

„Þetta er náttúrulega bara Súperman, liggur við. Maður hefur verið að fylgjast með honum í gegnum árin og læra af honum. Við erum með smá einkahúmor í gangi og ég kalla hann oft pabba. Það er bara frábært að fylgjast með honum og þótt að hann sé kominn vel yfir þrítugt, þá spilar hann eins og tvítugur strákur.“

Ísland leikur gegn gríðarsterku liði Belga á laugardaginn og gæti jafnvel farið áfram úr riðlinum með tapi. Slíkar pælingar eru þó víðs fjarri hjá landsliðsmanninum.

„Við þurfum bara að leika til sigurs. ég tel okkur geta unnið þá hérna á heimavelli og ef það tekst, þá lítur þetta nú ansi vel út með lokakeppnina á næsta ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert