Kynnti sig fyrir forsetanum – myndskeið

Kristófer Acox í baráttunni gegn Kýpur á dögunum.
Kristófer Acox í baráttunni gegn Kýpur á dögunum. Árni Sæberg

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, kveikti mikla stemmningu í Laugardalshöllinni á miðvikudag er liðið sigraði Kýpur 84:62 í undankeppni Evrópumótsins, en hann átti þá svakalega troðslu sem náðist á myndband.

Kristófer er 22 ára gamall en hann leikur með Furman-skólanum í Greenville í Suður-Karólínu og hefur þá leikið með KR hér á landi.

Skondið atvik átti sér stað fyrir leik Íslands og Sviss í undankeppninni í lok ágúst en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heilsaði þá leikmönnum fyrir leikinn. Hann óskaði öllum leikmönnum velfarnaðar í leiknum.

Alls fengu ellefu leikmenn af tólf kveðju á íslensku frá honum en Kristófer fékk kveðju á ensku frá forsetanum. Faðir Kristófers er bandarískur en sá heitir Terry Acox og spilaði lengi vel hér á landi en móðir Kristófers er hins vegar íslensk.

Guðni ruglaðist aðeins en Kristófer hafði húmor fyrir því. Guðni bað hann afsökunar á Twitter en óhætt er að segja að Kristófer hafi kynnt sig vel fyrir honum í leiknum gegn Kýpur á dögunum, þar sem hann átti svakalega troðslu sem kveikti í stemmningunni í Laugardalshöllinni. Hægt er að sjá myndskeið af því hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert