Nýliðar Þórs fá Bandaríkjamann

Jalen Riley.
Jalen Riley. Ljósmynd/Twitter

Lið Þórs á Akureyri, sem er nýliði í Dominos-deild karla í körfuknattleik í vetur, hefur samið við Bandaríkjamanninn Jalen Riley um að leika með liðinu í vetur. Riley er 23 ára og útskrifaðist úr East Tennesse State háskólanum árið 2015.

Riley reyndi fyrir sér á Spáni og í Slóvakíu síðasta vetur, en á heimasíðu Þórs segir að hann hafi ekki náð að spila neinn leik á Spáni og var látinn taka pokann sinn eftir fimm leiki í Slóvakíu. Hann leikur sem skotbakvörður og á að vera góð skytta.

Jalen leysir Drew Lehman af hólmi en hann hefur lagt skóna á hilluna og hefur þegið þjálfarastarf í háskólaboltanum í heimalandinu. Drew skilaði sínu og vel það síðasta vetur og hjálpaði okkur að komast upp í Dominos-deildina,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, við heimasíðu félagsins.

„Jalen spilar sömu stöðu en er öðruvísi leikmaður. Hann er meiri íþróttamaður og fljótari. Hann er mjög hungraður í að sanna sig eftir að hlutirnir gengu ekki hjá honum síðasta vetur. Með hann inn fyrir Drew, Ingva í staðinn fyrir Ella og Lewis sem viðbót vonast ég til að við höldum áfram að vaxa sem lið og byggjum ofan á þann flotta grunn sem myndaðist síðasta vetur í 1. deildinni," sagði Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert